139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma aðeins upp og dýpka umræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar varðandi tvennt. Annað sem ég tek algerlega undir er gagnrýni hans á undirbúning þessa fjárauka. Ég hef reyndar nefnt það áður og tel með ólíkindum að þegar menn koma með endurskoðaða fjárhagsáætlun, fjáraukinn er auðvitað ekkert annað, á síðasta mánuði ársins skuli þeir á milli 2. og 3. umr. finna hjá sér þörf til að bæta rúmum 50 milljörðum við þá áætlun. Þau tíðindi mundu þykja dálítið döpur á öðrum vígstöðvum, í öðrum fyrirtækjum eða öðrum opinberum rekstri.

Varðandi Íbúðalánasjóð vekur það auðvitað athygli að hv. þingmaður nefndi 18 milljarða annars vegar og hins vegar 22 milljarða. Í ljósi þess að við erum að tala um niðurskurð á heilbrigðissviði í kringum 4–5 milljarða er merkilegt að því skuli kastað fram eins og það sé ekkert mál hvort við segjum 18, 22 eða 33 milljarðar. Það er svolítið áhugavert að velta fyrir sér hvaða hlutfall við erum að tala um.

Varðandi Lánasjóð landbúnaðarins er það alveg rétt sem fram kom í máli þingmannsins að hann var sjálfstæð stofnun sem var seld árið 2005 og hafði ekkert með einkavæðingu bankanna að gera. Ástæðan fyrir því að lánasjóðurinn var seldur var að hann var ekki lengur samkeppnishæfur á þeim markaði sem hann var. Hann var einfaldlega með of háa vexti miðað við það sem bankarnir buðu og í útboði keypti Landsbankinn lánasjóðinn. Hins vegar fóru ýmsir aðilar sem áttu viðskipti við lánasjóðinn og skiptu við aðrar lánastofnanir þannig að lánasjóðurinn fór ekki í heild sinni inn í Landsbankann. Því finnst mér mikilvæg spurning á hverju þessi ríkisábyrgð er. (Forseti hringir.) Lánasjóðurinn var vissulega seldur og ábyrgðin getur ekki verið á því lánasafni sem fór þar inn vegna þess að það er ekki sama lánasafn og var í sjóðnum. Ég tek undir orð þingmannsins (Forseti hringir.) um að skynsamlegt sé að fresta atkvæðagreiðslu um þetta (Forseti hringir.) tiltekna mál.