139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég kom reyndar líka inn á það í ræðu minni áðan að þegar verið er að gera svo stórar breytingar í fjáraukalögunum, eins og verið er að gera núna fyrir árið 2010, þá er rétt það sem hv. þingmaður bendir á að það sé eins og þegar sveitarstjórnir endurskoða fjárhagsáætlanir. Þetta er í raun og veru ekkert annað.

Þegar farið er með tölur á þennan hátt, eins og ég sagði réttilega í ræðu minni, verður það til þess að við höfum ekki nógu mikla yfirsýn og sá ferill sem ég var að lýsa áðan fer í gang með því að byrjað er á að koma til hv. fjárlaganefndar og segja: Það þarf 18 milljarða til að rétta af eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs. Síðan nokkrum klukkutímum seinna þarf 22 milljarða en ekki 18 milljarða. Þessi aðferð segir manni kannski hve lítil yfirsýn er yfir heildarfjármál ríkisins. Þessu verður að breyta. Það er ekki hægt að ætlast til að þingið afgreiði þetta svona. Ég velti því oft fyrir mér hvort þetta sé gert til að menn hafi ekki neinn tíma til að fara nákvæmlega yfir svo stórar ákvarðanir.

Hvað varðar Lánasjóð landbúnaðarins og ríkisábyrgðina þá benti ég einmitt á það, án þess að ég ætli að fullyrða neitt, að ég teldi að mistökin við lánasjóðinn og ástæðan fyrir því að við þyrftum að gjaldfæra þessa ríkisábyrgð upp á 24 milljarða væri út af seinni einkavæðingu bankanna. Fyrri einkavæðingin kemur málinu ekkert við þó að margir hv. þingmenn vilji halda því fram að hún hafi gert það. Það er bara ekki þannig. Staðreyndirnar eru allt aðrar. Þá veltir maður fyrir sér á hvaða grunni við ræðum þetta. Ég held að mistökin hafi falist í þessu. Það er ekki hægt að vera með ríkisábyrgð út af Lánasjóði landbúnaðarins á floti í öllu eignasafni Landsbankans. Hún hlýtur að vera tengd við eignina sem lánasjóðurinn átti á móti.