139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir svarið. Ég held að ég geti hreinlega sagt það líka að hafi hæstv. fjármálaráðherra haft uppi þau orð að þetta væri klúður í einkavæðingu þá hlýtur hann að hafa átt við sína eigin einkavæðingu á Landsbankanum því að Lánasjóður landbúnaðarins var seldur þangað inn.

Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar er talað um að stærsti hlutinn af þessari ríkisábyrgð, eða 13,8 milljarðar, sé vegna Lánasjóðs landbúnaðarins. Það er því umtalsverð upphæð önnur sem er þarna inni og væri auðvitað mikilvægt fyrir þingmenn alla, finnst mér og tek þar af leiðandi undir með hv. þingmanni, að gera sér grein fyrir því hvaða upphæðir þeir eru að samþykkja, ekki síst þegar um ræðir svo háar fjárhæðir.

En aðeins varðandi lánasjóðinn til að dýpka þá umræðu frekar. Hafi hann verið felldur inn í Landsbankann á 3 milljarða er ljóst að sjóðurinn sem slíkur er ekki þar inni vegna þess að ýmsir aðilar sem tóku lán hjá sjóðnum, eins og ég sagði áðan, færðu viðskipti sín yfir í aðrar lánastofnanir. Ég held að það hljóti að vera mjög mikilvægt að vita hvort ríkisábyrgð er á lánunum sem eru í Landsbankanum því að hún getur vart verið á lánum í öðrum lánastofnunum þar sem þau lán eru þeirra sem gengu út úr lánasjóðnum, enda var hann lagður niður. Mér finnst þetta vægast sagt afar sérkennilegt mál.

En heilt yfir og almennt væri áhugavert að heyra frá hv. þingmanni, þar sem hann hefur verið mjög gagnrýninn á reikningsskil og fjárlagavinnuna og ekki síður vinnuna við fjáraukann, álit hans á því hvernig vinnubrögðin ættu að vera svo að við stæðum ekki í þessu klúðri seint að kvöldi síðasta mánaðar ársins.