139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:35]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að hrósa hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir það sem hún sagði áðan, að málið sé í rauninni ekki fullbúið. Hún er staðfastari en nokkru sinni áður í trú sinni a.m.k. að rannsaka þurfi sjóðinn. Síðan, í þeirri hollustu sinni sem hún greinilega hefur gagnvart þingmeirihlutanum á þinginu, reynir hún að sýna fram á að málið sé engu að síður tækt til atkvæðagreiðslu. Ég er ekki sammála henni hvað það varðar. Mér fannst ég líka greina hjá henni að hún hefði ekki trú á því að með rannsókninni kæmi margt nýtt fram á þeim dögum sem eftir eru fram að þinghléi. Ég vil því spyrja hv. þingmann, formann félagsmálanefndar og líka sem þingmann sem á sæti í efnahags- og skattanefnd: Hvernig ætlar hv. þingmaður að greiða atkvæði í þessu máli sem að hennar mati er ekki fullbúið og gefur ekki glögga mynd af stöðu sjóðsins, sérstaklega þegar horft er til 5% eiginfjárhlutfallskröfunnar, mun hún vera staðföst og standa fast við sannfæringu sína í þeirri atkvæðagreiðslu sem hugsanlega fer þá fram á morgun? Ég vona hins vegar að atkvæðagreiðslunni verði frestað þar til rannsókn hefur verið lokið og við gefum okkur enn betri tíma, sýnum fram á ný vinnubrögð í þinginu, sýnum fram á það að forseti þingsins beiti sér fyrir því að þingið verði ekki kúgað af hálfu framkvæmdarvaldsins, að við gefum okkur tíma og sýnum fram á ný vinnubrögð. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, sem hefur komið fram eins og ég gat um á mjög opinskáan hátt og eftirtektarverðan að mínu mati: Ætlar hún að standa við sannfæringu sína og greiða atkvæði og þá hvernig við afgreiðslu fjáraukalagafrumvarpsins?