139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:39]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil geta þess að ég tók ekki þátt í 2. umr. fjáraukalagafrumvarpsins, er að taka þátt í minni fyrstu umræðu á grundvelli vinnu sem farið hefur fram innan hv. fjárlaganefndar. Ég sit núna á þessum vetri í fyrsta sinn í fjárlaganefnd og taldi mig þekkja eitt og annað til þingsins en ég verð að segja að vinnubrögðin komu mér að vissu leyti á óvart en að vissu leyti ekki. Ég vil byrja á því engu að síður að taka undir það sem m.a. félagar mínir hafa getið um hér á undan, að það er eflaust ekki formanni hv. fjárlaganefndar að kenna hvernig þetta allt saman er búið. Það er alveg ljóst að innan fjárlaganefndar, sérstaklega innan meiri hlutans, verður engu breytt og ekkert sett fram nema fyrirmæli hafi komið um það frá fjármálaráðuneytinu. Gömul vinnubrögð eða ný, ég skal ekki segja. Það er þó alveg ljóst og kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur fyrr í dag að þau komu henni greinilega svolítið á óvart vinnubrögðin á milli 2. og 3. umr. fjáraukalagafrumvarpsins þegar allt í einu var dembt inn á mjög stuttum fundi fjárlaganefndar tillögum, sérstaklega tvær tillögur, mjög stórar, sem fólu í sér fjárhæð upp á samtals 55 milljarða kr. Önnur er hins vegar heimild sem við ræddum áðan, m.a. hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem er greinilega ósátt við þá aðferðafræði sem ríkisstjórnin beitir gagnvart Íbúðalánasjóði. Þar er verið að leggja til heimild allt að 33 milljörðum kr. til endurfjármögnunar Íbúðalánasjóðs. Ég kem að því síðar. Þó að aðrir hafi farið mjög vel yfir þetta er það engu að síður þannig að eftir ræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur er alveg ljóst að fjárþörf sjóðsins á árunum 2010–2011 getur verið 35–43 milljarðar kr. til að styrkja eiginfjárhlutfall sjóðsins. Meira að segja er það þannig að þær tillögur sem lagt er upp með má verulega draga í efa að séu sannar og réttar og samkvæmt réttum reikningsskilavenjum.

Hin tillagan sem er upp á tæpa 24 milljarða kr. snertir m.a. ríkisábyrgðir. Yfir allt þetta er búið að fara og flokksfélagar mínir í fjárlaganefnd, hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Ásbjörn Óttarsson, hafa farið mjög vel yfir þessa risastóru þætti sem snerta þessar breytingar á fjáraukalagafrumvarpinu. Við munum það líka sem vorum hér við 1. umr. fjáraukalagafrumvarps að þá fannst fjármálaráðherra sér ekki vera hossað nægilega mikið fyrir gríðarlega góðan árangur. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra brosir í kampinn og veit alveg út á hvað mál mitt gengur. (Utanrrh.: Nei, þetta er… úr svipbrigðum mínum.) Ég veit að hann veit það alveg, ég trúi ekki að hann sé svo fákunnandi um fjáraukann. Við vitum að fjármálaráðherra var við 1. umr. nokkuð drjúgur með sig. Og hann mátti alveg vera það því að þá gaf fjáraukalagafrumvarpið það til kynna að verulegur afgangur yrði. Við vitum reyndar að (Utanrrh.: Hann er alltaf drjúgur með sig.) sá afgangur er — hæstv. fjármálaráðherra er alltaf drjúgur með sig, segir hæstv. utanríkisráðherra hér í frammíkalli. (Gripið fram í.) Gott og vel með það, (Gripið fram í.) við getum rætt þetta síðar. En uppistaðan í hinum góða afgangi í fjáraukalagafrumvarpinu er aðallega í tvennu lagi, tæplega 20 milljarðar kr. út af sölunni á Avens (Gripið fram í.) og síðan 20 milljarðar kr. sem við erum að spara í fjármagnskostnaði og vaxtagjöldum fyrir árið. Þetta eru tveir langstærstu póstarnir sem tengjast fjáraukanum.

Síðan kemur það núna, eins og hv. þingmenn hafa reifað hér á undan, að á 58 mínútna fundi var verið að reifa það og koma fram með tillögur sem snerta um 55 milljarða kr. Ég minnist þess líka í 1. umr. fjáraukalagafrumvarpsins að hæstv. fjármálaráðherra var spurður að því hvernig hann sæi skattana og skattahækkanirnar snerta ríkissjóð og tekjujöfnun ríkissjóðs. Við sjálfstæðismenn teljum að þetta muni auka byrðar á fjölskyldur landsins, við vitum að það mun skerða tekjur ríkissjóðs til lengri tíma litið enda er það að koma á daginn, bæði í fjáraukanum og við spáum því líka fyrir næsta ár. En hæstv. fjármálaráðherra gat ekki svarað þessu þá af því að hann hafði einungis tæpa mínútu til að svara. Við höfðum 58 mínútur til þess að afgreiða bara með einu handtaki 55 milljarða kr. út úr fjárlaganefnd án þess að fá þessa glöggu mynd sem m.a. hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir var að kalla eftir. Við í minni hlutanum í fjárlaganefnd gátum ekki fengið tíma til að fara yfir þetta, tíma til að fá hina glöggu mynd til að spyrja þessara spurninga, en það varð allt vitlaust í Samfylkingunni, einu sinni sem oftar, og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir stoppaði málið um tíma. Þess vegna erum við að ræða málið hér í kvöld.

Núna á að fara fram rannsókn á Íbúðalánasjóði, það er fínt, en myndin af þessum 33 milljörðum er engu að síður ekki skýr. Það hefur enginn enn þá útskýrt hvernig menn ætla að brúa það því að hv. þingmaður benti m.a. á að það vantar 35–43 milljarða kr. til að fylla upp í þarfir Íbúðalánasjóðs. Hvernig ætla menn þá að brúa það bil sem eftir stendur? Gott og vel.

Af því kollegar mínir í nefndinni hafa farið yfir stóru myndina varðandi stóru fjárhæðirnar ætla ég að fara yfir vinnubrögðin. Hægt er að taka undir þá gagnrýni sem sett var fram fyrr í dag að vinnubrögðin eru ekki til fyrirmyndar og í engu samræmi við það sem hæstv. forseti hverju sinni á að beita sér fyrir í þágu þingsins. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað fá afstöðu forseta þingsins til þeirrar tillögu sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lagði fram í ræðu sinni. Af því að myndin er ekki glögg, af hverju bíðum við þá ekki í mestu rósemd og vinsemd með atkvæðagreiðsluna út af fjáraukanum þar til fáum þessa glöggu mynd? Tíminn er ekki að hlaupa frá okkur í þessu máli, við vitum að þingfundum lýkur fyrir jól 18., 19. eða 20. desember, lýkur a.m.k. fyrir 24. desember, vonandi fyrir aðfangadag, þannig að við höfum tímann fyrir okkur til að fara yfir þessa hluti og fá þá mynd sem kallað er eftir. Þess vegna finnst mér reyna á núna forsætisnefnd með forseta þingsins í broddi fylkingar, hvort hún ætlar núna einu sinni að standa með þingmönnum sínum í baráttu við framkvæmdarvaldið, sem kemur á síðustu metrunum með mynd og tillögur sem brengla stóru myndina af fjáraukanum þannig að ekki er lengur hægt að hossa hæstv. fjármálaráðherra eins og hann var að biðja um við 1. umr.

Aðeins að minna máli sem ég velti fyrir mér, kannski út frá prinsippunum. Hér er lögð fram tillaga sem snertir það m.a. að heimila Landbúnaðarháskóla Íslands að stofna hlutafélag, og vel að merkja, virðulegi forseti, við erum með hæstv. fjármálaráðherra sem kemur frá Vinstri grænum, við erum með hæstv. menntamálaráðherra sem kemur frá Vinstri grænum og hér erum við með tillögu sem m.a. snertir það að Landbúnaðarháskóli Íslands fái að stofna hlutafélag um búrekstur skólans og leggja til félagsins bústofn og lausafé sem stofnfé. Þessari tillögu ætla ég ekki að mæla gegn, ég hef skilning á henni af því að það skiptir oft máli hvernig rekstrarform er um ákveðinn búrekstur, hvort sem það er lausafé sem stofnfé eða annað fé. En ég spyr: Er þetta grundvallarprinsipp sem verður hér eftirleiðis? Munu aðrir háskólar í landinu, hvort sem það er Háskólinn á Akureyri, á Hólum, Háskóli Íslands eða aðrir háskólar, fá sömu meðferð og Landbúnaðarháskólinn fær? Er þetta meginregla sem yfirvöld fjármála og yfirvöld menntamála ætla að leggja hér? Er það þannig? Það væri fróðlegt að vita. (Gripið fram í.) Ég er síður en svo á móti þessari tillögu en mér finnst hún athyglisverð þar sem hún kemur úr ranni Vinstri grænna. Til hamingju með fyrstu einkavæðinguna innan skólakerfisins.

Það sem ég vil líka spyrja hæstv. forseta um sem ég veit að styður okkur dyggilega í því að styðja við Slysavarnafélagið Landsbjörgu, og hér situr einn af helstu forkólfum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í hliðarsal og hlustar af mikilli athygli, enda búinn að standa sig vel á þeim bænum. Það er verið að leggja til 15 millj. kr. til viðbótar til Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem er vel, sem er ekki spurning að er skref sem við eigum að taka, en ég spyr: Hví í ósköpunum gat ekki dómsmála- og mannréttindaráðuneytið gert ráð fyrir því í sínum ramma strax frá upphafi þannig að svo mikilvæg samtök eins og Slysavarnafélagið Landsbjörg geti nú einu sinni reitt sig á áætlanir sem það getur byggt á til lengri tíma? Eða getur verið að dómsmálaráðherra hafi skorið niður innan síns ramma og sagt: Þetta verkefni er svo pottþétt að fjárlaganefnd mun að sjálfsögðu bjarga því? Eru menn að koma sér hjá erfiðum niðurskurði? Að sjálfsögðu munum við alltaf standa með Landsbjörgu í þessum málum, en ég er að spyrja hér um vinnubrögð og aðferðir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og ráðherra innan hennar.

Þetta var það sem ég vildi m.a. koma að í minni stuttu ræðu. Ég minni á, og kem þá aftur að vinnubrögðunum, að það er margítrekað m.a. af Ríkisendurskoðun í gegnum árin, m.a. í skýrslu frá 2001, að mig minnir, um það hvernig á ríkisfjármálum er haldið, er það undirstrikað að fjáraukinn sé fyrir ófyrirséðum útgjöldum, eins og t.d. náttúruhamfarirnar á Suðurlandi. Það eru ófyrirséð útgjöld. En ég gat ekki heyrt það á ræðum stjórnarþingmanna áðan hvernig standi á því að milli 2. og 3. umr. komi tillaga með ríkisábyrgð upp á tæpa 24 milljarða kr., 23 milljarða kr. og síðan eru ríkisábyrgðir á næsta fjárlagaári, 2011, skornar niður þannig að þetta eru bara svona ákveðnar færslur á milli. Af hverju var ekki hægt að sjá þetta strax í byrjun? Var það út af því að myndin af fjáraukanum var kannski ekki nægilega þægileg fyrir fjármálaráðherra? Ekki segja mér að þetta hafi verið svo ófyrirséð útgjöld að það þurfti að pompa þessu inn á 58 mínútna fundi hjá fjárlaganefnd, rétt fyrir lokun.

Það er þetta sem ég er að tala um, þetta eru vinnubrögð sem ég hélt að við værum að segja skilið við. Ég hélt að við værum að reyna að breyta einhverju í þinginu með fulltingi forseta hverju sinni, að þingmenn og ekki síst fjárlaganefnd, þessi mikilvæga nefnd þingsins, fengi stuðning, hvatningu, frá forsætisnefnd og forseta þingsins við það að sinna aðhalds- og eftirlitshlutverki sínu hverju sinni. Það er ekki. Þess vegna beini ég hvatningarorðum mínum til forseta um að styðja við bakið á eftirlitshlutverki þingsins og þar kemur ekki síst fjárlaganefnd við sögu. Ég hvet forseta þingsins til að fara með þau skilaboð inn í forsætisnefnd að aðhaldshlutverk þingsins þurfi að efla og auka. Það er í samræmi við hina svonefndu Atla-nefnd, það er í samræmi við þá kröfu sem er uppi, bæði innan þingsins sem utan, að við sinnum þessu hlutverki okkar betur. Öðruvísi getum við ekki séð fram á ábyrg fjárlög, ekki núna, ekki á næsta ári, hvað þá í náinni framtíð ef við förum ekki að taka þetta hlutverk okkar alvarlega.