139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010 og ég verð að segja að það kemur mér talsvert á óvart með hvaða hætti vinnulagið virðist vera í fjárlaganefnd, sérstaklega hvað varðar afgreiðslu þessa máls. Ég átti sæti í þingmannanefndinni sem hafði það hlutverk að fara yfir rannsóknarskýrslu Alþingis. Í þeirri nefnd var unnið talsvert mikið starf við að gaumgæfa niðurstöður rannsóknarnefndarinnar, draga af þeim lærdóm, leggja fram tillögur um hvað betur mætti fara til að tryggja að viðlíka atburðir mundu ekki gerast aftur í íslensku samfélagi. Þetta var meginhlutverk þingmannanefndarinnar. Afrakstur þeirrar vinnu var skýrsla á nokkur hundruð blaðsíðum þar sem farið er yfir hvað skuli gera.

Í þeirri skýrslu er þingsályktunartillaga í allmörgum liðum sem þingheimur samþykkti 63:0 í þinginu í september. Þessari vinnu var ætlað að tryggja það að menn mundu draga lærdóm af því sem gerst hefur, því hruni sem varð. Ég get ekki séð, því miður, af þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í þessu máli að menn hafi lært nokkurn skapaðan hlut. Á 58 mínútum, eins og rakið hefur verið alloft í þessum stól í þessari umræðu, eru teknar ákvarðanir á að því er virðist mjög litlum gögnum um það að ráðstafa 55 milljörðum kr. úr ríkissjóði. Ég get ekki séð að þetta séu vönduð vinnubrögð. En við skulum, herra forseti, aðeins grípa niður í skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem fjallað er um hlutverk Alþingis. Hér er fjallað í allnokkru máli um Alþingi og sett fram hörð gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem þingmannanefndin taldi rétt og mikilvægt að bregðast við. Hér segir, með leyfir forseta:

„Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.“

Ég get ekki séð að litið hafi verið til þessa við afgreiðslu þessa máls. Þá segir:

„Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.“

Þetta eru stór og mikil orð sem allir þingmenn í þingmannanefndinni voru sammála um. Í þingsályktunartillögunni sjálfri sem alþingismenn, allir sem hér starfa, líka þeir sem sitja í fjárlaganefnd, samþykktu í haust segir:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.

Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Herra forseti. Verður það svo innan nokkurra ára að gerð verður ný rannsóknarskýrsla og þá um störf okkar sem hér störfum í dag og um það með hvaða hætti okkur tókst ekki að læra af hruninu? Ég hélt að öll sú vinna sem var lögð í þessa skýrslu, sem var lögð í þessa þingsályktunartillögu hefði átt að skila því að menn mundu sjá að það væri þörf á að læra, þörf á því að taka upp ný vinnubrögð. Það er greinilega ekki svo og að mínu mati hefur ekkert, ekki neitt, verið gert með þessa þingsályktunartillögu. Henni hefur að mínu mati einfaldlega verið stungið undir stól og það er mjög alvarlegt. Meðal annars lagði þingmannanefndin til að sérstakri nefnd yrði falið að fylgja þessum tillögum eftir. Sú nefnd hefur ekki verið kölluð saman. Engri ákveðinni nefnd hefur verið falið þetta hlutverk. Það er mjög alvarlegt og ég tel að það sé gagnrýnivert eins og ég fór yfir í þinginu í síðustu viku.

Herra forseti. Það er ekkert annað í þessu máli að gera en hvetja menn til dáða. Vissulega er gott á hátíðarstundum að hafa uppi falleg orð um það að bæta eigi vinnubrögð, að Alþingi ætli að taka sjálfstæði sitt alvarlega, en þegar kemur að því að sýna það í verki virðast menn ekki hafa dug eða hugrekki til að standa gegn framkvæmdarvaldinu og a.m.k. kalla eftir fullnægjandi gögnum og skýringum á því sem verið er að gera. Þetta er dapurlegt og maður verður hryggur að sjá þetta gerast með þessum hætti. Ég átta mig á því eins og allir aðrir að það eru erfiðir tímar, ég átta mig á því að það eru að koma áramót og ég átta mig á því að það liggur á því að afgreiða þau mál sem verða að fá afgreiðslu í þinginu fyrir þau tímamót. Engu að síður getum við ekki verið slíkir menn að taka í öðru orðinu ákvörðun um að bæta starfshættina í þinginu en að gefa eftir öll þau prinsipp í því næsta vegna þess að okkur liggur svo mikið á, gefa allt eftir til framkvæmdarvaldsins um það með hvaða hætti málum er háttað í þinginu.

Herra forseti. Mér er mikið niðri fyrir vegna þessa og því miður er þetta ekki eina málið sem hægt væri að halda þessa ræðu um. Við höfum, að því er mér sýnist, ekkert lært og það er afskaplega dapurlegt.