139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir andsvarið. Ég held því einfaldlega fram að það hefði verið hægt að koma með þessar tillögur miklu fyrr inn í þingið. Þetta er ekki nýtt. Að því er mér skilst af umræðunni undanfarna daga, ég sat nú fund félagsmálanefndar með fjárlaganefnd þar sem íbúðalánasjóðsmenn fóru yfir þessi mál, er þetta ekki eitthvað sem dúkkaði hér upp bara í fyrradag eða í síðustu viku. Ég minni á og bendi áhugasömum á að kynna sér fyrirspurn sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir beindi til fjármálaráðherra í vor akkúrat um málefni Íbúðalánasjóðs og hvort ekki væri rétt að skoða það hversu mikið fjármagn þyrfti til að bæta þar inn, einmitt af þessum ástæðum. Það lá fyrir þá þegar. Því var hins vegar ekki svarað skýrt af hálfu fjármálaráðherra. Auðvitað er það ekki svo að ég standi hér algjörlega ómeðvituð um þetta séu einhverjar ráðstafanir sem vissulega þurfi að koma til. Ég er að gagnrýna að þessu sé dælt inn á síðustu metrunum í stað þess að menn geti farið yfir málið á yfirvegaðan hátt á grundvelli einhverra gagna og kynnt sér málin á lengri tíma en 58 mínútum.