139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:07]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við ræðum fjáraukalagafrumvarp í 3. umr. og hefur umræðan verið ágæt það sem af er að mörgu leyti. Þó verð ég að lýsa því yfir að mér finnst eins og menn séu að uppgötva hér einhvern nýjan hlut sem er þó löngu ljós, í það minnsta þeim sem hafa setið í fjárlaganefnd um alllangan tíma. Það eru þeir helst sem hafa tekið þátt í umræðunni í kvöld. Þá á ég annars vegar við Íbúðalánasjóð en til stendur að veita heimild til að auka eigið fé sjóðsins og gera honum kleift að standa undir því hlutverki sem honum er ætlað og hins vegar ríkisábyrgðamál sem hefur verið títtnefnt hér í kvöld.

Bæði málin má rekja til efnahagshrunsins, bæði eru þetta hrunamál þó að angar þeirra nái lengra aftur í tímann, í það minnsta það sem snertir ríkisábyrgðamálið. Bæði málin eru skilgetin afkvæmi þeirrar pólitísku stefnu og stjórnmála sem rekin voru hér árum saman og enduðu með hruninu haustið 2008. (Gripið fram í: Gamalt.) Um það er enginn vafi, um það vitna þau skjöl og gögn sem fjárlaganefnd hefur haft úr að spila, m.a. greinargerð vegna Íbúðalánasjóðs. Ég ætla að leyfa mér að vitna í hana því mér finnst það hafa farið fram hjá nokkrum nefndarmönnum og þingmönnum sem hér hafa talað að ágætum gögnum hefur verið skilað varðandi stöðu Íbúðalánasjóðs í fjárlaganefnd þó að þeirra hafi ekki verið getið í kvöld.

Með leyfi forseta ætla ég að vitna í greinargerð félags- og tryggingamálaráðuneytisins um endurfjármögnun Íbúðalánasjóðs sem rædd var í fjárlaganefnd fyrir nokkrum dögum:

„Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hefur eigið fé Íbúðalánasjóðs rýrnað mikið vegna vanskila og tapaðra krafna. Í kjölfar birtingar ársuppgjörs ársins 2009, sem sýndi að eiginfjárhlutfall sjóðsins var 3% í lok ársins, var ráðherra tilkynnt formlega um stöðuna. Í kjölfar þess skipaði ráðherra vinnuhóp sem var ætlað að fjalla um eiginfjárhlutfall sjóðsins og leggja fram tillögur um aðgerðir til styrkingar ef þess gerðist þörf. Í maí 2010 barst Íbúðalánasjóði erindi þess efnis að hann skilaði til Fjármálaeftirlitsins viðskipta- og rekstraráætlun fyrir árin 2010–2013 sem byggði á tilteknum efnahagsforsendum. Var þetta gert í samræmi við viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda sem var gefin út í tengslum við aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“

Áfram segir í þessari greinargerð, með leyfi forseta:

„Þessar niðurstöður hafa verið til umræðu milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs annars vegar og fjármálaráðuneytisins hins vegar. Til þess að 5% markmið náist“ — þ.e. 5% eigið fé — „er lagt til að ríkissjóður leggi Íbúðalánasjóði til 22 milljarða króna fyrir árslok 2010 í formi ríkisbréfa.

Enn fremur er nú áætlað að það þurfi að leggja sjóðnum til 2,2 milljarða til viðbótar í árslok 2011 til að viðhalda eiginfjárhlutfalli sjóðsins, 5%, árin 2012 og 2013.“

Síðan segir í þessari greinargerð, með leyfi forseta:

„Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 var ljóst að vanskil og tapaðar kröfur mundu hafa áhrif á eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs og hefur hlutfallið lækkað úr 7% í árslok 2007 í 2,1% ef miðað er við fyrstu sex mánuði ársins.“

Að lokum vil ég vitna hvað þetta mál varðar í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Ástæður þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs hefur lækkað jafnmikið og raun ber vitni eru nokkrar:

1. Mikil aukning hefur verið á framlagi í afskriftasjóð vegna tapaðra útlána gagnvart útlánum til einstaklinga og lögaðila. Nemur fjárhæðin um 4.421 millj. kr. frá árinu 2008. Íbúðalánasjóður hefur afskrifað 10.497 millj. kr. í kjölfar efnahagshrunsins vegna kaupa annars vegar á skuldabréfum og hins vegar vaxtaskiptasamningum. Var hvort tveggja liður í fjár- og áhættustýringu sjóðsins.“

Af þessari greinargerð er því augljóst í fyrsta lagi hvers vegna Íbúðalánasjóður er í þeirri stöðu sem hann er í í dag. Sömuleiðis er augljóst að aðdragandinn að þessu máli er langur, bæði innan félags- og tryggingamálaráðuneytisins og af hálfu Íbúðalánasjóðs. Þessi mál voru líka rædd í fjárlaganefnd í maí sl., frekar en í júní minnir mig. Það á ekki að koma fjárlaganefndarmönnum á óvart að þessi staða sé komin upp, ekki á nokkurn hátt. Heimildin til að auka eigið fé upp á 33 milljarða kr. með útgáfu ríkisbréfa gerðist ekkert á þessum 58 mínútum ef ég man rétt, á fundi sem hófst einhvern dag kl. 19.25 og lauk 58 mínútum síðar. Þetta eru ekki nýjar fréttir, þetta á sér langan aðdraganda í stjórnkerfinu, innan Stjórnarráðsins, hjá Íbúðalánasjóði og í fjárlaganefnd. Þar hafa þessi mál verið rædd.

Á dögunum svaraði hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrirspurn hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um stöðu Íbúðalánasjóðs og er fróðlegt fyrir þingmanninn að lesa það svar. Í því má finna mörg svör við þeim spurningum sem við spyrjum okkur í dag varðandi stöðu Íbúðalánasjóðs og nauðsyn þess að grípa til ráðstafana.

Með leyfi forseta vil ég vitna í svar hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn þingmannsins þar sem hann spyr hversu mikil útlánatöp Íbúðalánasjóðs hafi verið á árunum 2000–2010. Í svarinu kemur fram að árið 2007 hafi framlag í afskriftasjóð Íbúðalánasjóðs verið 295 millj. kr., árið 2008 807 millj. kr., árið 2009 2.121 millj. kr. og árið 2010 1.492 millj. kr., rétt tæpar 4.500 millj. kr. á tímanum frá efnahagshruninu.

Það kemur einnig fram í svari hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að árið 2006 hafi útlánatöp vegna útlána til einstaklinga numið 63 millj. kr. Árið 2007 voru þau 193 millj. kr., 2008 301 millj. kr. og 2009 330 millj. kr. Allt gerist þetta á því tímabili sem ósköpin dundu á okkur enda segir í svari hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem ég las úr áðan varðandi heildartapið að sjóðurinn hafi afskrifað í kjölfar fjármálahrunsins 10.497 millj. kr. Það leynir sér ekki í hverju vandinn er fólginn og hann á ekki að koma nokkrum manni á óvart, ekki í þessum þingsal og síst af öllu í fjárlaganefnd þar sem þessi mál hafa verið reglulega til umræðu.

Varðandi hitt stóra málið sem hér hefur verið rætt, ríkisábyrgðina, láta menn sömuleiðis eins og það hafi dúkkað upp öllum að óvörum á 58 mínútna fundinum í fjárlaganefnd í lok nóvember sem er auðvitað fjarri sanni. Í ríkisreikningum, allt frá árinu 2005, hefur þessarar ábyrgðar verið getið. Á hverju einasta ári hefur þess verið getið að ríkið sé í ábyrgð fyrir þeim skuldbindingum sem fóru inn í Landsbankann á sínum tíma: 2005 22.154 millj. kr., 2006 19.973 millj. kr., 2007 15.097 millj. kr. o.s.frv., o.s.frv. Þetta hefur blasað við í öllum gögnum sem lögð hafa verið fram og árið 2008 lá fyrir í uppgjöri af hálfu Fjármálaeftirlitsins, þegar hrunið varð og verið var að halda bönkunum starfandi, hvernig farið yrði með þær skuldbindingar. Öll þau gögn liggja fyrir í fjárlaganefnd og ættu ekki að koma nokkrum manni á óvart.

Eins og komið hefur fram í kvöld þá snýst þetta í stuttu máli um að Lánasjóður landbúnaðarins var seldur á árinu 2005 til Landsbanka Íslands. Söluverðið var tæpir 2,7 milljarðar kr. Stærsti hlutinn af söluvirðinu rann inn í Lífeyrissjóð bænda. Einhverjum hundruðum milljóna var haldið þar eftir sem þáverandi landbúnaðarráðherra hafði að stærstum hluta til ráðstöfunar, til ýmissa nota örugglega. Yfirteknar skuldir voru á þeim tíma að verðmæti 13,8 milljarðar og yfirtekin lán sjóðsins í formi skuldabréfa voru að verðmæti 13,9 milljarðar.

Í minnisblaði frá ríkisendurskoðanda til fjárlaganefndar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins voru afhentar með ríkisábyrgð. Engin áform voru í kaupsamningi um að aflétta ríkisábyrgðinni.“

Engin áform voru uppi í kaupsamningi um að aflétta ríkisábyrgðinni. Svo einfalt hljómar það. Hvers vegna í ósköpunum gerðu menn þetta? Hvert var álit þeirra gesta sem komu á fund fjárlaganefndar til að ræða þetta tiltekna mál? Ríkisendurskoðun, Fjársýsla ríkisins, fulltrúar fjármálaráðuneytisins, voru sammála um eitt: Í fyrsta lagi hefði þetta aldrei átt að gerast. Þetta voru mistök sem við eigum að læra af en tíðarandinn var svona á þessum tíma. Tíðarandinn var svona á þessum tíma, sögðu fulltrúar Ríkisendurskoðunar á fundi fjárlaganefndar. Stjórnmálin voru svona á þessum tíma. Pólitíska hugarfarið var svona. Reyna átti að koma opinberum sjóðum í öruggar hendur í einkavæddum bönkum. Það var tíðarandinn. Það var hugarfarið. Kæruleysið var slíkt í þessum … (ÞKG: Hver sagði þessa setningu?) Ríkisendurskoðandi sagði nákvæmlega þessa setningu: „Tíðarandinn var svona á þessum tíma.“

Það er alveg hárrétt hjá ríkisendurskoðanda. Svona var tíðarandinn, hugarfarið og pólitíkin. Þannig voru stjórnmálin rekin á þessum tíma, best átti að vera að koma opinberum sjóðum inn í einkavædda banka í öruggt skjól, sem síðar reyndist alls ekki vera.

Lærdómurinn á auðvitað að vera sá að ganga betur en þarna var gengið frá sambærilegum málum í framtíðinni. Þetta voru mistök. Mistökin voru rakin til ársins 2008 þegar Lánasjóður landbúnaðarins, stærsti einstaki sjóðurinn sem þetta varðar, var settur inn í Landsbanka Íslands.

Ríkisendurskoðun fjallar um þetta mál í nýrri skýrslu sem birtist í dag og segir þar, með leyfi forseta:

„Stærsta fjárhæðin,“ — hér er verið að fjalla um ríkisábyrgðir — „tæpir 3 milljarðar kr. er vegna Lánasjóðs landbúnaðarins en eignir hans voru seldar gamla Landsbankanum í október 2005 fyrir tæpa 2,7 milljarða kr. Samkvæmt samningnum voru yfirteknar skuldir sjóðsins tryggðar með ríkisábyrgð. Skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins voru skildar eftir í Landsbankanum sem varð til þess að þessi ábyrgð ríkisins varð virk. Aðrar gjaldfærslur eru vegna skuldabréfa í eigu gömlu bankanna sem ríkisábyrgð hvíldi á.“

Um þetta var enginn ágreiningur hjá þeim gestum sem komu á fund fjárlaganefndar. Enginn ágreiningur var á milli Ríkisendurskoðunar, Fjársýslu ríkisins eða fjármálaráðuneytisins um afgreiðslu málsins. Ábyrgðin er orðin virk. Hún var virk haustið 2008 þegar bankarnir féllu og síðan hefur ríkið greitt af þessum lánum. Nú er komið að því að færa þetta til gjalda, því miður. Svona átti þetta ekki að fara. Þetta var kæruleysi. Þetta var hirðuleysi með opinbera sjóði sem við erum að fá í hausinn aftur í dag. Hverjir bera ábyrgð á því ef menn vilja fara út í það? Hverjir voru í Stjórnarráðinu á þessum tíma ef við ætlum að skoða það? Guðni Ágústsson var landbúnaðarráðherra á þessum tíma, Árni M. Mathiesen var fjármálaráðherra, Davíð Oddsson var formaður Sjálfstæðisflokksins og Halldór Ásgrímsson var formaður Framsóknarflokksins. Þeir bera ábyrgð á því hvernig þarna fór, þessir karlar öðrum fremur bera auðvitað ábyrgð á því hvernig þessi mál fóru og hvernig staða þeirra er í dag. En það er kannski ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að gert sé hreint fyrir dyrum hvað þessi mál varðar og þau hreinsuð upp, þau séu ekki lengur falin inni í bókum Landsbankans og dúkki ekki reglulega upp í umræðu sem þessari í framtíðinni, heldur verði þau gerð upp að fullu. Það er það sem verið er að gera hér.