139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og þessi söngur sem maður fær sífellt að heyra frá Vinstri grænum sé spilaður aftur og aftur, það er eins og hann þarfnist endurnýjunar við. Ég ætla hins vegar að koma hingað upp til að tala um vinnubrögðin, en fram til þessa hefur umræða um þau sett mikinn svip á ræður hér.

Hvað sagði hæstv. fjármálaráðherra í fyrri umræðu í þessu máli? Hann sagði: Fjáraukalög eru um ófyrirséð útgjöld, um ófyrirséð útgjaldatilvik, og tók náttúruhamfarirnar sem dæmi. Mér finnst hv. þm. Björn Valur Gíslason hafa undirbyggt málflutning okkar sem höfum gagnrýnt vinnubrögðin því að hann hefur sýnt fram á að það vissu einfaldlega allir af því að þetta þyrfti að gera. Af hverju var það þá ekki gert strax við upphaf umræðunnar um fjáraukalög? Af hverju kemur það inn í umræðuna á síðustu metrunum? Ef allir vissu þetta og höfðu þetta á tæru, af hverju var það ekki gert þá? Var það kannski út af því að þá hefði myndin ekki orðið nægilega fullkomin fyrir ríkisstjórnina við kynningu á fjáraukalögum? Getur það verið ein af ástæðunum?

Mér fannst hv. þingmaður allt að því vega ómaklega að hv. formanni fjárlaganefndar en ekki síður að hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þar sem þær sögðu myndina ekkert endilega vera allt of skýra. Er hv. þingmaður að segja að þær skilji ekki það sem fyrir er lagt, formaður félagsmálanefndar og meðlimur í viðskipta- og efnahags- og skattanefnd? Mér fannst hann vega ómaklega að þeim. Mér fannst það líka þegar hann, hv. þingmaður, var að vitna í svar frá hæstv. félagsmálaráðherra um Íbúðalánasjóð, það svar var einfaldlega ekki skýrara en svo að á morgun fer fram utandagskrárumræða um Íbúðalánasjóð af því svar félagsmálaráðherra var ekki nægilega skýrt. Það veit enginn nákvæmlega um hvað þetta er. Myndin er ekki glögg, svo ég vitni í orð hv. þingmanns úr Samfylkingunni.

Ég vil (Forseti hringir.) spyrja hv. þingmann: Er hann sáttur við þessi vinnubrögð? Vill hann viðhalda þessum vinnubrögðum áfram í fjárlaganefnd? Er þetta það sem hann vill beita sér fyrir?

Ég kem síðar að Landbúnaðarháskólanum sem ég ætlaði líka að spyrja hv. þingmann um.