139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er spurt um góð vinnubrögð, út af hverju þessi hlutur sé geymdur fram á síðustu stundu, til 58 mínútna fundarins eins og hann er kallaður, og hvers vegna þetta hafi ekki verið gert fyrr.

Ég vil í fyrsta lagi benda hv. þingmanni á að hér er ekki um útgjaldaaukningu að ræða af hálfu ríkisins og ríkissjóðs, með því að gjaldfella þær ríkisábyrgðir sem hér eru í dag. Í öðru lagi er verið að tala um útgáfu skuldabréfa, eins og kemur fram í gögnum sem ég vitnaði í áðan, um fjármögnun á þeim heimildum sem Íbúðalánasjóði eru fengnar. Það er ekki verið að taka fé úr ríkissjóði. Það er ekki verið að gera myndina verri en hún var.

Þessir hlutir hafa legið fyrir í opinberum gögnum til dagsins í dag, það er ekki verið að gera hlutina verri en þeir voru, heldur er verið að reyna að færa þá til bókar eins og rétt er að gera. Það eru góð vinnubrögð, virðulegi forseti, það er það gegnsæi sem á að vera í fjárlögum ríkisins, að skuldbindingar af þessu tagi, þó að uppruni þeirra sé ljótur og þó svo það geri okkur ekki mikið gagn í samfélaginu, séu þar sem þær þurfa að vera. Þetta þarf að vera uppi á borðinu. Þetta þarf að vera skýrt. Hér er ekki verið að auka útgjöld eins og stundum hefði mátt ætla á umræðunni hér í kvöld, heldur langt frá því. Þetta eru upplýsingar sem hafa legið fyrir, staðreyndir sem hafa blasað við. Nú er bara verið að færa þær til bókar.