139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:32]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður verður þá bara að leiðrétta mig ef ég hef misskilið hann. Ég skildi hann á þann veg, og vil fagna því sérstaklega, að hann ætlaði að beita sér fyrir því að þessum vinnubrögðum yrði ekki beitt eftirleiðis, hann vilji styrkja og undirbyggja þingið, hann vilji auka eftirlitshlutverk fjárlaganefndar, hann vilji ekki nota sömu vinnubrögð og beitt var á milli 2. og 3. umr. af hálfu framkvæmdarvaldsins og vilji miðla því til fjárlaganefndar.

Hv. þingmaður verður líka að útskýra fyrir mér: Versnar afkoma ríkissjóðs við þessa tillögu frá meiri hluta fjárlaganefndar? Versnar hún? Já eða nei? Ég vil líka spyrja: Til hvers erum við þá að biðja um að heimildir til lántöku hækki um 33 milljarða á milli umræðna? Af hverju er verið að biðja um þá heimild? Eru þetta bara einhverjir talnaleikir?

Ég álít að afkoma ríkissjóðs versni með þessum tillögum og það þýði ekkert að segja að ekkert verði greitt út. Af hverju er verið að biðja um heimildina til lántöku upp á 33 milljarða?