139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:33]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Afkoma ríkissjóðs versnar ekki hvað þetta varðar. Svo að ég fari yfir það aftur þá er í fyrsta lagi verið að færa til gjalda fallnar ríkisábyrgðir sem féllu í hausinn á okkur haustið 2008 þegar bankahrunið varð á Íslandi. Í öðru lagi verður Íbúðalánasjóður fjármagnaður með útgáfu skuldabréfa og það myndast eign á móti, þannig að ballansinn heldur hvað það varðar.

Hv. þingmanni verður tíðrætt um eftirlitshlutverkið sem fjárlaganefnd og Alþingi á að gegna hvað varðar fjárlög ríkisins. Ég vitnaði í nokkrar skýrslur Ríkisendurskoðunar í ræðu minni hér í 2. umr. fjáraukalagafrumvarpsins sem vitna ótvírætt um agaleysi í rekstri ríkisins árið 2007. Með leyfi forseta segir:

„Þegar öllu er á botninn hvolft felst vandamálið í agaleysi allra aðila, bæði forstöðumanna, (Forseti hringir.) sem eiga hlut að máli, stjórnenda og ráðuneyta.“

Virðulegi forseti. Þetta hefur breyst.