139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fækkun heimilislækna hefur verið viðvarandi vandamál hér á landi. Ástæður eru taldar vera m.a. þær að of fáar námsstöður hafi verið hérlendis, margir læknar hafa kosið að ljúka námi í útlöndum og ekki snúa allir aftur þaðan. Þetta hefur leitt til þess að endurnýjun heimilislækna hefur verið ónæg. Meðalaldur heimilislækna er hár og jafnframt kjósa margir að fara snemma á eftirlaun. Þetta vita flestir sem hafa reynt að bóka tíma hjá heimilislækni sínum þar sem í boði hefur verið annaðhvort að bíða í eina, tvær eða þrjár vikur eftir að fá tíma eða mæta eftir kl. fjögur, bíða og borga meira.

Í máli hv. formanns heilbrigðisnefndar kom nýlega fram að ódýrasta stig heilbrigðisþjónustu sé sú þjónusta sem veitt er í gegnum heilsugæsluna. Næst á eftir eru sérfræðingarnir og dýrust er sú þjónusta sem veitt er á hinum svokölluðu hátæknisjúkrahúsum. Því hefur virst eins og öllu hafi verið snúið á haus í tillögum stjórnvalda hingað til varðandi hagræðingu í heilbrigðisþjónustu. Fyrstu tillögur í fjárlagafrumvarpinu virtust ganga út á að vísa fólki sem mest á stóru sjúkrahúsin í Reykjavík og á Akureyri. Illa hefur gengið að byggja upp heilsugæsluna, heimilislæknum fækkar stöðugt og ekki virðist mega hreyfa við sérfræðingum, samanber yfirkeyrslu Sjúkratryggingastofnunar vegna kjarasamninga sérfræðinga.

Ein helsta hindrunin við að byggja upp heilsugæsluna á landsvísu og byggja upp hagkvæmara heilbrigðiskerfi er skortur á heimilislæknum. Því er það mikið áhyggjuefni að í stað þess að verið sé að ráða bug á heimilislæknaskortinum virðist vandinn vera að aukast samkvæmt fréttum í dag. Því spyr ég hv. formann heilbrigðisnefndar, Þuríði Backman, þar sem komið hefur fram að það mun taka töluverðan tíma að fjölga heimilislæknum, hvort til greina komi að fjölga starfsstéttum heilbrigðisstarfsmanna sem gætu starfað á heilsugæslustöðvum. Þá vil ég nefna svokallaðan „physician assistant“ eða aðstoðarmann læknis sem starfar undir yfirstjórn læknis við að taka niður upplýsingar um sjúklinga, skoða sjúklinga, gera einfaldar aðgerðir (Forseti hringir.) o.s.frv. Annar möguleiki væri að hjúkrunarfræðingar fengju í auknum mæli að greina sjúkdóma og gefa út lyfseðla, samanber það sem þekkist (Forseti hringir.) bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.