139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og fyrir að taka upp málefni gagnavera. Það er rétt að innan iðnaðarnefndar höfum við fjallað um þetta tvisvar eða þrisvar. Við höfum áhyggjur af virðisaukaskattsfrumvarpinu sem er hjá efnahags- og skattanefnd og höfum fengið til okkar ýmsa, svo sem samtök gagnavera og lögfræðinga. Við áttum fund í morgun með fulltrúa frá iðnaðarráðuneyti sem kunni þetta vel og skýrði út sjónarmið sín. Við fáum á næsta fund fulltrúa frá fjármálaráðuneyti til að fara yfir þetta.

Það hefur komið fram að miðað við óbreytt kerfi og miðað við það frumvarp sem liggur hjá efnahags- og skattanefnd væru okkar gagnaver ekki samkeppnisfær við gagnaver í Evrópu. Það er það sem við þurfum að vinda bráðan bug að því að breyta, koma því inn í frumvarpið og gera það fyrir jól meðan þessi lög eru opin þannig að gagnaver á Íslandi verði fullkomlega samkeppnisfær við það sem gerist í Evrópu. Þá þurfum við í raun og veru ekkert að spyrja Eftirlitsstofnun Evrópu um það ef við tökum upp sama regluverkið.

Ef við ætlum hins vegar að flytja inn tæki í gagnaver frá Ameríku eða öðrum heimsálfum horfir málið svolítið öðruvísi við. Þess vegna fannst mér vera fínn samhljómur í nefndinni allri í morgun um að við mundum skoða þetta gagnvart Evrópusambandinu og reyna að vinna þetta þannig. Ég hef fulla trú á því að það takist. Það er skemmst frá því að segja, virðulegi forseti, að við formaður efnahags- og skattanefndar, við hv. þm. Helgi Hjörvar, töluðum saman í morgun og efnahags- og skattanefnd mun leita eftir formlegu áliti frá okkur í iðnaðarnefnd um þetta. Mér var ljúft að skýra frá því að innan nefndarinnar væri mikil samstaða um að vinna þetta mál og skila tillögum þannig að ég vil trúa því og vona að okkur takist að búa (Forseti hringir.) þarna til gott regluverk og gera það áður en þing fer í jólafrí.