139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hugtök eins og ljós og friður séu algeng í umræðunni á þingi. Það er sá tími ársins að okkur eiga að vera þau ofarlega í huga og ég fagna því. Sá hv. þingmaður sem hóf þá umræðu, hv. þm. Þráinn Bertelsson, var eitt sinn mjög hamingjusamur þingmaður, frjáls eins og fuglinn, en þá gripu örlögin inn í og hann gerðist meðlimur í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það þarf svo sem ekki að segja neinar fréttir í þeim efnum, þar geisa óeirðir innan dyra á degi hverjum og það er því eðlilegt að hv. þingmaður komi hingað og óski öllum ljóss og friðar. Ég tek það sem ákall hv. þingmanns til flokkssystkina sinna um að slíðra vopnin á þeim bænum vegna þess að við þurfum á því að halda að sá flokkur sé stjórntækur. Hann hefur ekki verið það í alllangan tíma.

Á vettvangi efnahags- og skattanefndar erum við enn og aftur að vinna að frumvörpum þar sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að flækja skattkerfið og hækka álögur á atvinnulífið. Að sama skapi fáum við vísbendingar frá greiningaraðilum um að horfur á næsta ári séu því miður dökkar og við hv. þingmenn eigum ekki að koma hér upp og skjóta sendiboðann. Því er einfaldlega spáð að efnahagsbatinn verði mun hægari en áætlanir ríkisstjórnar gera ráð fyrir, enda snúa þær áætlanir að því að hækka skatta — og þannig fjölgum við ekki störfum í samfélaginu. Þannig verða til minni tekjur fyrir ríkissjóð og þannig eigum við erfiðara með að halda uppi öflugu velferðarkerfi og borga niður skuldir okkar.

Úr því að skuldir ber á góma var það þessi ríkisstjórn sem vildi endilega samþykkja ömurlegan Icesave-samning. Vextir af þeim samningi væru í dag orðnir yfir 80 milljarðar kr. og ég minni á að við stöndum í blóðugum niðurskurði upp á brot af þeirri upphæð í dag. Sem betur fer náðum við (Forseti hringir.) að koma í veg fyrir það, og íslenska þjóðin, að þessi ríkisstjórn kæmi þeim vilja sínum áfram að borga gríðarlega (Forseti hringir.) háar upphæðir í vaxtakostnað, nokkuð sem við höfum ekki efni á.