139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau bjartsýnisorð sem hafa fallið hér í dag varðandi það hvernig við horfum fram á veginn og það að við eigum að temja okkur að líta fremur á glasið sem hálffullt en hálftómt.

Mig langar að koma inn í þá umræðu sem hér hefur farið fram um skort á heimilislæknum og tek undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur um það að þar er sannarlega vandi á höndum. Við skulum samt átta okkur á því að það tekur á milli 10 og 14 ár að búa til einn heimilislækni, þ.e. frá því að einstaklingur ákveður að fara í háskóla að læra til læknis þar til út er kominn einn heimilislæknir. Það er því mikilvægt, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom inn á hér áðan, að horfa til þess að þarna er ekki um eitthvert skammtímaverkefni að ræða heldur langtímastefnumörkun og afar mikilvæga.

Ég tek að hluta til undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur um að vel má skoða það að fá nýjar stéttir inn á heilsugæslustöðvarnar. Til þess að stétt eins og „physician assistants“ kæmi þar inn — með leyfi forseta nota ég erlent tungumál hér — þyrfti lagabreytingu og þar sem þessi stétt starfar erlendis starfar hún venjulega inni á sjúkrahúsum undir eftirliti annarra sérfræðinga. Sú stétt sem hins vegar starfar á heilsugæslustöðvum víða erlendis, undir stjórn lækna, eru „practical nurses“ eða „practicing nurses“. Slíkir starfsmenn eru þegar til í íslenska heilbrigðiskerfinu og eru þegar til á Íslandi einstaklingar með þá menntun og mætti í rauninni frekar líta til þess en hins.

Starfsumhverfi heimilislækna þarf líka að skoða. Við þurfum að horfa til þess af hverju allar þær stöður sem þó eru til mannast ekki af menntuðum heimilislæknum (Forseti hringir.) á Íslandi. Það hefur ekki verið að gerast.