139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er til marks um aukinn aga ef sífellt fleiri ríkisstofnanir eru innan ramma fjárlaga og því ber að fagna, en um það hefur ríkt mikil samstaða hér á Alþingi, bæði hjá meiri hluta og minni hluta. Ég held hins vegar að við eigum langt í land með að koma aga á vinnuna í fjárlaganefnd eins og lýst var hér áðan og tek undir með Ríkisendurskoðun sem hefur gagnrýnt framkvæmdina harðlega eins og kom fram í áliti 2. minni hluta.

Varðandi ríkisábyrgðir hefur því verið kennt um að hér hafi einhver lausatök verið í fortíðinni. Því miður hefur umræðan verið út og suður og réttar upplýsingar hafa átt erfitt með að koma fram. Það er einfaldlega þannig að þetta eru ábyrgðir sem falla á ríkissjóð vegna þess að lífeyrissjóðir, sem eru eigendur kröfunnar, eru að innheimta á ábyrgðarmanninn. Ég held að mistökin (Forseti hringir.) séu fyrst og fremst því um að kenna að ríkisstjórninni mistókst að færa eignirnar (Forseti hringir.) yfir í nýju bankana þegar þær áttu að vera eftir í gömlu.