139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:44]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er verið að fara að afgreiða fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2010. Eins og fram hefur komið var bætt inn tæplega 58 milljörðum kr. á síðustu mínútunum og afgreitt á um 58 mínútum, 33 milljarða kr. heimild til Íbúðalánasjóðs og tæpa 25 milljarða vegna fallinna ríkisábyrgða. Þessi greiðsla fellur á almenning í landinu og ástæðan er handvömm stjórnmálamanna, stjórnsýslunnar og embættismanna sem á sínum tíma gengu erinda stjórnmálaflokka sem voru við völd, það voru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfur var ég starfsmaður Ríkisábyrgðasjóðs á þessum tíma og mun bera vitni um það þegar rannsóknin verður gerð á Íbúðalánasjóði hvað var hér í gangi þar sem hugmyndafræðileg átök voru um framtíð sjóðsins og starfsmenn hans stofnuðu honum í stórhættu.

Það er algerlega óásættanlegt að afgreiða fjáraukalög með þessum hætti upp á 58 milljarða kr. að auki án þess að það hafi farið fram (Forseti hringir.) opinber rannsókn fyrst á því hvað gerðist. Það er bara óafsakanleg meðferð á skattgreiðendum. (Gripið fram í: Allt þér að kenna.)