139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur: Betur má ef duga skal. Ég vil líka benda hv. þm. Birni Vali Gíslasyni á að skýrslur Ríkisendurskoðunar hafa nú ekki mikið breyst frá árinu 2005 til dagsins í dag. Í þeim kemur nefnilega margoft fram mikil gagnrýni á þau lausatök sem eru á fjármálum ríkisins.

Mig langar hins vegar að vekja athygli á tveimur stórum breytum í fjáraukalögunum. Í fyrsta lagi dragast tekjuskattar einstaklinga saman um 5,1 milljarð kr. Ég bendi á þetta sérstaklega í þeirri von, vegna þeirra stjórnarþingmanna sem hyggjast samþykkja enn frekari skattahækkanir hér á þinginu, að það kveiki einhver ljós hjá þeim og þeir sjái að heimilin í landinu þola ekki frekari skattahækkanir. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi vil ég benda á það að hér er verið að draga saman um 4 milljarða kr. hjá bótaþegum, ellilífeyrisþegum og öryrkjum, til viðbótar þeim 7 milljörðum kr. sem gert var ráð fyrir í fjáraukalagafrumvarpinu. Þetta staðfestir að nú er gengið mjög hart gegn bótaþegum í landinu og það verður að skoða sérstaklega í heild sinni (Forseti hringir.) hvernig þetta má vera.