139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:51]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir til afgreiðslu er um leiðréttingu upp á 280 millj. kr. á framlagi inn í atvinnuleysisbætur. Tillagan er borin uppi af formanni fjárlaganefndar og kemur fram eftir að búið er að taka málið út úr nefnd. Það sem við göngum til atkvæða um hér er enn ein staðfestingin á þeim hroðvirknislegu vinnubrögðum sem viðhöfð voru þegar málið var tekið út úr fjárlaganefnd og verið var að ljúka tillögugerð stjórnarmeirihlutans við afgreiðslu fjáraukalaga. Þetta verklag er alls ekki til fyrirmyndar og síst í takt við þann vilja sem fram hefur komið hjá flestum alþingismönnum sem hafa tekið til máls um fjárlögin og vilja vinna að bættum vinnubrögðum.