139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:07]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er tiltölulega ný af nálinni í fjárlaganefnd en umræða um málefni sjóðsins er ekki ný af nálinni. Það kom fram í minnisblaði, sem fjárlaganefnd fékk á sameiginlegum fundi með félagsmálanefnd, að þáverandi félagsmálaráðherra hafði skipað vinnuhóp í byrjun þessa árs til að fjalla um og taka á málefnum Íbúðalánasjóðs. Það kom einnig fram, í svari sem hæstv. fjármálaráðherra gaf hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur 26. apríl á þessu ári, að mál sjóðsins væru í skoðun og tillagna væri að vænta. Þær tillögur litu dagsins ljós á mánudagskvöldið síðasta og það voru 33 milljarðar á 30 mínútum. Reikni nú hver um sig. Málið er algjörlega óútfært. Þingmenn hafa ekki hugmynd um hvernig þetta fé verður nýtt. Þingmenn hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif (Forseti hringir.) þessi aðgerð mun hafa á vaxtakjör sjóðsins né heldur hvernig hann ætlar að renta þá fjármuni sem þarna verða reiddir af hendi.