139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:12]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á einum lið sem hér var til umræðu vegna þess að við vorum að ræða um Atvinnuleysistryggingasjóð, að menn hefðu áhyggjur af því að við værum ekki að skila því í lækkun á atvinnuleysistryggingagjaldinu. Það láðist að það kæmi skýrt fram hér að lækkunin þar um 280 milljónir kr. er til þess að geta borgað desemberuppbót á atvinnuleysisbætur úr sjóðnum. Ég vil að þetta komi skýrt fram, því að þetta hefur ekki verið gert á undanförnum árum, var síðast gert árið 2005. Og ég held að það hljóti að vera þannig að allir þeir sem hér eru í salnum hafi skilning á því að atvinnulaust fólk sem hefur verið hér undanfarið ár eigi rétt á að fá atvinnuleysisbætur í desembermánuði. Ég vildi bara að þetta kæmi skýrt fram hér í umræðunni.