139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Mjög merkilegt starf er unnið í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og að mörgu er að hyggja eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, m.a. þeim búrekstri sem styður við rannsóknastarf skólans. Eins og kom fram á fundi hv. fjárlaganefndar er alveg skýrt að það er mjög mikilvægt fyrir skólann að þessir þættir skólastarfsins verði hlutafélagavæddir sem er hentugra rekstrarform hvað þessa þætti varðar. Það má kannski segja að lausafé á fæti verði þá að stofnfé.

Að sjálfsögðu styður Sjálfstæðisflokkurinn það framtak vinstri flokkanna hér á þingi að nota fjölbreytt rekstrarform í ríkara mæli í mennta- og heilbrigðiskerfinu.