139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég styð að sjálfsögðu frumvarpið. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. fjárlaganefnd fyrir vel unnin störf. Það er ánægjulegt að annað árið í röð er útkoma á rekstri ríkissjóðs til muna betri en fjárlög viðkomandi árs gerðu ráð fyrir. Sá árangur sem er að nást í rekstri fjölmargra stofnana og eininga í ríkiskerfinu sem árum saman höfðu glímt við framúrkeyrslu og hallarekstur er ekki síst ánægjulegur. Mun færri einingar í ríkisrekstrinum fara nú út fyrir svonefnd 4% viðmiðunarmörk og það eru forstöðumenn og starfsmenn þessara stofnana sem eiga sérstaklega heiður skilinn fyrir það hversu vel hefur til tekist við að laga rekstur ríkisins að fjárheimildum og nýjum efnahagslegum veruleika þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður. Það er að nást mikill árangur í því að taka á hallarekstri ríkissjóðs. Uppsafnaður halli tveggja ára er nú tugum og aftur tugum milljarða króna minni en fjárlög gerðu ráð fyrir, bæði 2009 og 2010, og það gengur mun betur að tryggja að einstakar stofnanir og einingar (Forseti hringir.) í rekstri ríkisins séu innan fjárheimilda. Það er mikilsverður árangur.