139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:37]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum stöðu Íbúðalánasjóðs sem er tímabært. Það er langt síðan hann fór út af sínum beina og breiða vegi. Vandræðin ná aftur til þess að gerðar voru mjög viðamiklar breytingar á sjóðnum árin 2004 og 2005. Hann hóf að bjóða 90% lán og fékk þá samkeppni frá bönkum, í kjölfarið mjög mikið af uppgreiðslum lána sinna. Mikið fé safnaðist upp í Íbúðalánasjóði og áhættustýringu sjóðsins var gjörbreytt. Ríkisábyrgðasjóður var á sínum tíma einn af eftirlitsaðilum með sjóðnum vegna þeirra ríkisábyrgða sem eru á lántökum hans. Nýrri áhættustýringarstefnu Íbúðalánasjóðs var hins vegar á þeim tíma haldi leyndri fyrir Ríkisábyrgðasjóði í níu mánuði. Þegar það loks upplýstist hvað þeir voru að gera, og voru farnir að taka þar ansi mikla áhættu, lagði Ríkisábyrgðasjóður einfaldlega til að Íbúðalánasjóði yrðu ekki veittar frekari ríkisábyrgðir á lántökur sínar vegna þess að málið þótti það alvarlegt. Það var ekki farið eftir þeim tillögum. Að hluta til erum við að greiða gjaldið fyrir það í dag og að hluta til fyrir áfallið sem hefur orðið af hruninu.

Íbúðalánasjóður er mjög mikilvæg stofnun, ein sú mikilvægasta af öllum í okkar samfélagi. Það er rétt sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði, á þessum tíma var í gangi valdastríð og hugmyndafræðilegt stríð um Íbúðalánasjóð. Framsóknarflokknum tókst að standa vörð um sjóðinn. Það var einbeittur vilji Sjálfstæðisflokksins að hann yrði einkavæddur og að íbúðalán yrðu gerð að algjörri markaðsvöru. Við getum svo kannski velt því fyrir okkur hver niðurstaðan hefði orðið þegar upp var staðið eftir hrunið úr því að 50–60 þús. heimili eiga við mikinn skuldavanda að stríða þrátt fyrir allt þetta. Það er efni í næstu sögu og (Forseti hringir.) ég tek hana hér á eftir.