139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar maður horfir á áhrif hrunsins er talað um að lífeyrissjóðakerfið hafi tapað um 20–25% af eignum sínum í hruninu. Það er þegar búið að nefna dæmið um Seðlabankann sem var væntanlega einn fyrsti vestræni seðlabankinn sem fór á hausinn á friðartímum, en þegar við horfum hins vegar á væntanlegt tap Íbúðalánasjóðs erum við að tala um 4% af eignum sjóðsins. Það er þá kannski ekki skrýtið að sá flokkur sem hefur einna helst staðið vörð um Íbúðalánasjóð sé ekki sáttur við þá setningu sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að 90% lánin hafi verið meðal stærstu hagstjórnarmistakanna sem voru gerð í aðdraganda hrunsins. Ég held að mörg mistök hafi verið gerð, ég get tekið undir það, í aðdraganda hrunsins. Ég held svo sannarlega að sú hagsmunagæsla, við skulum bara nota það orð, Framsóknarflokksins um Íbúðalánasjóð hafi hins vegar ekki verið mistök.

Það hefur alltaf verið afstaða okkar framsóknarmanna að öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum sé grundvallarþáttur í velferð íslensks almennings. Í þeim tilgangi höfum við þróað það kerfi sem er hér til staðar. Þau mistök sem minn flokkur gerði hins vegar í aðdraganda hrunsins voru að gæta ekki betur að því að ekki yrði gengið jafnhart fram og bankarnir gerðu á húsnæðismarkaðnum hér. Ég held margar fjölskyldur væru í allt annarri stöðu en þær eru í í dag ef þær hefðu fyrst og fremst tekið lán hjá Íbúðalánasjóði í staðinn fyrir að taka þessi gengistryggðu lán hjá bönkunum.

Það er líka mjög vinsælt að tala um að hér hafi verið rekin einhver sérstök séreignarstefna og að það þekkist ekki í nágrannalöndunum. Ég tel að ef við berum saman þá stefnu sem hefur verið rekin hér og í nágrannalöndum okkar (Forseti hringir.) eins og í Danmörku og Noregi getum við tekið undir að þar hefur líka verið rekin séreignarstefna.