139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:49]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Fram undan er rannsókn á Íbúðalánasjóði og það er gott mál. Það er mikið af gögnum til um sögu sjóðsins og verður áhugavert að velta þeim við og ég mun leggja mitt af mörkum til að upplýsa um það mál. Íbúðalánasjóður hlýtur einfaldlega að spila stórt hlutverk í framtíðarhúsnæðisstefnu þjóðarinnar en hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er nú í forsvari fyrir nefnd sem er að vinna að slíkum breytingum. Sú framtíð hlýtur m.a. að byggja á leigukerfi, kaupleigukerfi og séreignakerfi. Hér er um vandrataðan veg að fara því að með núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar verður slíkt kerfi illa byggt upp nema fólk muni leigja eigin íbúðir sem það er að missa vegna stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er vandséð hvernig á að fara að því að byggja hér upp leiguíbúðakerfi og kaupleigukerfi þegar allt húsnæði verður komið í eigu bankanna eða stór hluti þess. Þannig að það er mikið verk fyrir höndum.

Mig langar að minna á það í restina að húsnæðisþörf er ein af frumþörfum mannsins. Við verðum að eiga þak yfir höfuðið og skjól fyrir okkur og fjölskyldu okkar. Þeirri þörf verður illa sinnt á kapítalískum markaðsforsendum eingöngu. Reynsla okkar og reynsla allra annarra þjóða sýnir að húsnæðisþörf þarf að vera opinber stefna ríkisstjórnar í hverju landi og ein af þeim frumþörfum sem þarf að sinna og þeirri þörf þarf að sinna af vandvirkni og réttsýni.