139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:53]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Það hefur komið skýrt fram að almennt bera menn jákvæðan hug til Íbúðalánasjóðs og gera sér grein fyrir mikilvægi hans og hversu mikilvægt það er að við höfum úrræði í húsnæðismálum þannig að fólk hafi öruggt þak yfir höfuðið. Jafnframt hefur verið bent á að það skipti þá mjög miklu máli líka að við, í framhaldi af því sem við höfum reynt á undanförnum árum með útlán til húsnæðiskaupa og í gegnum Íbúðalánasjóð, höfum fjölbreyttari úrræði, að við styrkjum leigumarkaðinn, kaupleiguna o.s.frv.

Það hefur komið fram í umræðunni að ég mæli með að sú þingsályktunartillaga sem komið hefur fram hér, um rannsókn á Íbúðalánasjóði, nái fram að ganga. Í því felst enginn áfellisdómur yfir Íbúðalánasjóði. Ég tel mjög mikilvægt, eins og komið hefur fram, að hafa í huga að gerðar voru athugasemdir við Íbúðalánasjóð í rannsóknarskýrslu Alþingis. Ég tel því mjög mikilvægt fyrir sjóðinn að menn fari yfir málin heildstætt og reyni að komast að niðurstöðu um hvað gerðist og hvaða þátt Íbúðalánasjóður átti í því sem átti sér stað.

Málshefjandi, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, ítrekar að einhverjum spurningum sé ósvarað. Ég veit líka að komnar eru fram 12 nýjar spurningar sem Íbúðalánasjóður og félagsmálaráðuneytið munu að sjálfsögðu svara eftir bestu getu. Ég mun reyna að fylgja því eftir að þær upplýsingar sem er heimilt að veita verði veittar en auðvitað er eitthvað af þeim atriðum sem spurt er um undir bankaleynd. Ég veit að hv. þingmaður er ekki að biðja um slíkar upplýsingar.

Varðandi það hversu nákvæmlega hægt er að vita hvað á að leggja í Íbúðalánasjóð þá held ég að hv. þingmaður hafi skilning á því að það er býsna mikil vinna að fara yfir allt lánasafnið og vita nákvæmlega hver er veðröð á hverju einstöku láni svo að ljóst sé hvað þarf að afskrifa, auk þess sem það er auðvitað háð ótal öðrum fyrirvörum um hvernig gengur í efnahags- og atvinnulífinu. Ég (Forseti hringir.) bið þess bara að menn gefi þann tíma sem þarf til að fara yfir stöðu sjóðsins. Aðalatriðið er að sjóðurinn lifi og að við tryggjum fólki gott og öruggt húsnæði.