139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[16:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu um frumvarp til laga um mannvirki, m.a. til að færa fram þakkir til núverandi formanns umhverfisnefndar og fyrrverandi formanns umhverfisnefndar fyrir þá vinnu sem hefur verið lögð í verkið og þá verkstjórn sem hefur verið á því sem ég tel að hafi verið til fyrirmyndar. Út af þeirri umræðu sem hér hefur komið upp um að breytingartillögurnar séu ítarlegar og miklar er það að segja að að mjög stórum hluta til er um að ræða mjög góða og mikla textavinnu í frumvarpi sem var skrifað með fullmiklum kansellístíl, ef svo má að orði komast. Margt af því sem var í frumvarpinu hefur verið fært til betra máls og skiljanlegra, og það er vel.

Það hefur komið fram að margir aðilar hafi veitt nefndinni umsagnir en rétt er að benda á, eins og fram kemur í áliti nefndarinnar, að ekki komu sérlega margir fyrir nefndina í þessari umferð. Það skýrist vitanlega af því að í því starfi sem unnið var í fyrravor, síðsumars og í haust hafði mikill fjöldi umsagnaraðila haft tækifæri til að koma fyrir nefndina og viðra sjónarmið sín og ekki var talin ástæða til að það yrði allt endurtekið nú.

Það er líka mikilvægt að muna að þetta frumvarp hangir óhjákvæmilega saman við frumvarpið um skipulagslög og því er mikilvægt að klára þetta mál fyrir áramót sem og frumvarp til laga um brunavarnir sem verður rætt hér á eftir. Lagabálkurinn allur þarf að geta tekið gildi á sama tíma. Hér er verið að færa þessi mál öll til betri vegar, breytingin á skipulagslögunum færir til að mynda þau mál öll í nútímalegra horf. Þessi tvö lagafrumvörp sem við ræðum hér í dag styðja síðan við það.

Ég vil að lokum, frú forseti, nefna að ég er afar ánægður með breytinguna á nafni þessarar stofnunar sem við ætlum að stofna, þ.e. að breyta henni í Mannvirkjastofnun en kalla hana ekki Byggingarstofnun. Ég tel fara mjög vel á þeirri breytingu. Í mínum huga er hugtakið mannvirki miklu víðtækara en hugtakið bygging og tekur væntanlega þá til fleiri mannanna verka, er ekki eins þröngt og fyrra hugtakið og að mörgu leyti góð breyting þess vegna.

Ég styð þetta frumvarp heils hugar, ítreka það sem hefur komið fram í máli hv. nefndarformanns og raunar annarra hv. þingmanna, það eru eftir nokkur atriði sem á eftir að hnýta endana á, skulum við segja, við 3. umr. Ég treysti verkstjórn hv. formanns sem og nefndarmönnum ágætlega til að klára það verk.