139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[16:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hv. formann umhverfisnefndar, Mörð Árnason, út í ákvæði sem fjallað er dálítið um í breytingartillögum við 3. gr. og 16. gr., og það deiluefni sem fjallað er um hér og í umsögnum sem bárust nefndinni milli slökkviliðs höfuðborgarinnar og Isavia eins og það heitir núna, áður Flugstoðir. Ég tel að hér sé ekki kveðið nógu skýrt á um valdsviðið. Gagnrýnt hefur verið að það sé óskýrt og ekki bundið í lög heldur var fjallað um það í umsögn um ákveðnar greinar áður fyrr. Þess vegna kemur upp þessi réttaróvissa, sem samgönguyfirvöld telja þó ekki vera. En vegna þessara deilna og út frá því sem hér er sett fram þá tel ég ekki vera kveðið nógu skýrt á um umsýslu varðandi loftför, að fyrsta aðkoma ef flugóhapp verður sé á valdsviði viðkomandi rekstrarfélags en ekki viðkomandi slökkviliðs.

Mig langar því í þessu andsvari að spyrja hv. formann umhverfisnefndar út í þetta og biðja hann að skýra fyrir mér hvort ekki sé alveg klárt að umsýsla með loftfarinu sé rekstrarfélagsins. Umsýsla með mannvirkjunum við viðkomandi flugvöll er hins vegar að sjálfsögðu viðkomandi slökkviliðs, viðkomandi bæjarfélags. Þetta er grundvallaratriði. Það mundi skýra margt ef hv. þingmaður, formaður umhverfisnefndar, mundi kveða alveg skýrt á um hver umræðan í nefndinni um þetta var og hvernig það er túlkað í breytingartillögu hv. nefndar.