139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Eins og ég sagði áðan erum við að skoða málið og förum í það á fullu að lokinni 2. umr. þannig að við umhverfisnefndarmenn erum nokkuð vanbúin til að taka almenna umræðu um þetta. Ég vil þó að sjálfsögðu gera mitt besta til að svara hv. þingmanni.

Að mínu viti, nú skal ég ekki mæla fyrir munn fleiri en þarf, eru þetta ekki óskýr ákvæði í lögunum eins og þau eru nú. Ég veit hins vegar að um þetta er deilt og um þetta deila stofnanir og jafnvel ráðuneyti, a.m.k. starfsmenn ráðuneyta. Brunavarnalögin mæla fyrir um þetta. Í athugasemdum við þau frá árinu 2000, sem eru helsta lögskýringargagn í þessu, er beinlínis tekið fram að flugvellir séu á verksviði Brunamálastofnunar. Um loftför er það að segja að þegar þau standa í loftsiglingum, svo maður noti orðalagið í Chicago-samningnum frá 1944 sem Bjarni Benediktsson skrifaði undir góðu heilli, þá er það ekki Brunamálastofnunar eða slökkviliða að skipta sér af því sem þar fer fram. En strax og þau eru komin á jörð niður eru þau komin í land- og lofthelgi lýðveldisins Íslands og eldvarnir sem þar er kveðið á um gilda. Þannig skil ég þetta.

Við erum sumsé að grafast fyrir um þetta og í morgun vorum við með mikinn fund, vel sóttan, þar sem voru bæði menn úr fluggeiranum og síðan brunamála- og slökkviliðshetjur. Þeirri umfjöllun er ekki lokið.