139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Í raun og veru kemur skýrt fram í svari hv. þingmanns, þó hann taki það fram að hann talar ekki fyrir hönd nefndarinnar og eftir eigi að fjalla um málið milli 2. og 3. umr., það sjónarmið að meðan vél er í lofti er hún sem betur ekki á vegum viðkomandi slökkviliðs. En um leið og hún er lent og komin á flugvöll tekur við slökkvilið viðkomandi bæjar. Þessu sjónarmiði er ég algjörlega ósammála. Chicago-sáttmálinn og allar reglugerðir og lög um loftferðir kveða á um að þegar kemur að fyrsta viðbragði, sem getur varað í tvær, þrjár mínútur og eins og við segjum stundum, kemur vonandi aldrei til, á slökkvilið viðkomandi flugvallar að vera sérbúið til þess. Um leið og eitthvert svona óhapp gerist fer auðvitað slökkvilið viðkomandi bæjarfélags af stað og kemur til hjálpar. En fyrsta viðbragð hlýtur að vera undir stjórn viðkomandi flugmálayfirvalda. Þannig þarf það að vera að mínu mati, virðulegi forseti, vegna þess að við ætlum ekki að fara á skjön við þann sáttmála sem hér hefur verið vitnað til.

Í athugasemdum í nefndarálitinu er fjallað um þetta, með leyfi forseta:

„Engu síður hefur verið ágreiningur um túlkun á gildissviðsákvæði laganna. Í ljósi þess telur nefndin mikilvægt að árétta þann skilning að samgöngumannvirki, þar með taldir flugvellir, falli undir gildissvið laganna og gerir nefndin tillögu að breytingu á 3. gr. frumvarpsins, í skilgreiningu „mannvirkis“, hvað það varðar.“

Með þessu, virðulegi forseti, er verið að staðfesta að þetta eigi að falla undir slökkvilið viðkomandi sveitarfélags og því er ég algjörlega ósammála. Ég ætla ekki að gera meiri athugasemdir við þetta hér í andsvari, ég mun fylgja þessu máli betur eftir í ræðu á eftir, vegna þess að þetta er grundvallaratriði sem verður að fá á hreint. Þessi lög eiga að vera skýr og við eigum að kveða skýrt á um þetta. (Forseti hringir.) Við eigum að taka út þann óskýrleika sem hefur verið kvartað um (Forseti hringir.) þegar menn hafa rætt þessa lagagrein og umsagnir (Forseti hringir.) um hana.