139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var afar athyglisverð ræða hjá hv. þm. Kristjáni Möller, sérstaklega í ljósi þess að þegar ég var með fyrirspurn hér í sumar um þessi mál og hann var til fyrirsvars komu þessar skoðanir alveg fram og augljóst er að þingmaðurinn hefur ekki skipt um skoðun.

Eins og þetta lítur út fyrir mér er hv. þm. Kristján Möller að blanda sér inn í einhvers konar baráttu milli einkareksturs og opinbers reksturs. Við vitum að þarna hafa valdmörkin ekki verið skýr á milli umhverfisráðuneytisins og samgönguráðuneytisins og það endurspeglast hér í þingsal nú þegar er farið að líða að lokum þessa máls.

Þingmaðurinn taldi upp hvað ætti að vera í forgangsröð varðandi eldvarnir á flugvöllum. Það var í fyrsta lagi öryggi, í öðru lagi hagkvæmni og í þriðja lagi alþjóðlegir samningar og skuldbindingar. Ég vil snúa þessu við og segja að að sjálfsögðu á öryggið alltaf að vera í fyrsta sæti og skuldbindingar okkar vegna erlendra samninga en um hagkvæmnina er ég ekki svo viss, þó að mönnum sé gert að spara á hverju einasta sviði núna verður öryggið alltaf að vera í fyrsta sæti sama hvað það kostar. Og þetta verður ríkisstjórnin að temja sér, að það er ekki hægt að spara á öllum sviðum og hér verður að forgangsraða. Við rekum alþjóðaflugvöll hér á landi og annan til vara á Egilsstöðum og við verðum að hafa þessi mál í lagi, sérstaklega í ljósi þess að við þurfum að vinna hér alþjóðlegt traust

Nú langar mig til að koma að spurningunni. Þingmaðurinn lagði til að taka ætti þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir frá meiri hluta umhverfisnefndar inn í umhverfisnefnd aftur og breyta þeim á milli umræðna. Hvaða (Forseti hringir.) tillögur nákvæmlega er þingmaðurinn að tala um? Hvaða töluliði er hann að tala um að þurfi að endurskoða (Forseti hringir.) á milli umræðna?