139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Jú, það er komið svar við fyrirspurn minni um hvaða breytingartillögur hv. þingmaður vill helst sjá inni í umhverfisnefnd á nýjan leik.

Mig langar í framhaldinu að spyrja, af því að þingmaðurinn ræðir mikið um skýrleika laga og ég get tekið undir það með honum að skýrleiki laga verður að vera afgerandi svo ekki sé hægt að mistúlka efni laganna, því að oft er kveðið á um að setja reglugerð í kjölfar laganna eins og kemur einmitt fram í þessu frumvarpi: Er kannski, hv. þm. Kristján Möller, óánægja þingmannsins með þetta frumvarp sú að fyrrverandi ráðherra vill ekki sjá þessu stað hjá nýrri stofnun sem kemur til með að heita Mannvirkjastofnun, vegna þess að þá færast þessi mál frá samgönguráðuneytinu yfir í umhverfisráðuneytið? Er það grunnurinn að þeirri óánægju þingmannsins sem kemur fram í þessari umræðu eða er einhver önnur ástæða, vegna þess að þingmaðurinn hafnaði því að hann væri að blanda sér í deilur milli einkageirans og opinbera geirans?

Mig langar síðan til að komast aðeins nær skoðunum þingmannsins af því að augljóslega er þetta honum mikið hjartans mál og hann hefur þá tækifæri til að svara þessu hér því að það er eitthvað sem hangir á spýtunni. En að sjálfsögðu er ég sem nefndarmaður í umhverfisnefnd reiðubúin til að taka þetta mál inn í nefndina á nýjan leik og fjalla um það faglega. Ég hef talað mikið fyrir því að setja hér skýr lög og á faglegan hátt.