139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsóknarnefndir. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis en það er samið að ósk nefndarinnar í kjölfar skýrslu vinnuhóps um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu sem kom út í september 2009. Við samningu frumvarpsins hefur forsætisnefnd haft gott samráð við formenn þingflokka og fulltrúa þeirra og enn fremur við flesta fulltrúa í allsherjarnefnd.

Í skýrslu þingmannanefndar um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 og ályktun Alþingis í kjölfarið, 28. september sl., er á því byggt að styrkja beri eftirlitshlutverk Alþingis. Um þessa niðurstöðu hefur ríkt einhugur sem birtist m.a. í þeirri breiðu samstöðu sem verið hefur um efni frumvarpsins í forsætisnefnd.

Að hluta byggist frumvarpið á dönsku lögunum um rannsóknarnefndir en einnig hefur verið litið til norskra reglna um sama efni og nýlegrar umfjöllunar þar í landi um rannsóknarnefndir Þá er einnig leitað fyrirmynda í íslenskum lögum, svo sem lögum um umboðsmann Alþingis og lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Almennar reglur um skipan og málsmeðferð fyrir opinberum rannsóknarnefndum hefur hingað til skort hér á landi. Með frumvarpinu er lagt til að úr þessu verði bætt og að Alþingi fái ákvörðunarvald um rannsóknarnefndir sem verði þannig hluti af eftirlitshlutverki Alþingis með ríkisstjórn og stjórnsýslu. Í frumvarpinu eru tillögur vinnuhóps forsætisnefndar um eftirlit með framkvæmdarvaldinu útfærðar nánar og í ljósi þess markmiðs sem hópurinn lagði til að haft yrði að leiðarljósi, að efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu, er lagt til að ákvörðun um skipan slíkra nefnda sé jafnan hjá Alþingi. Er það einnig í samræmi við þá þróun sem verið hefur hér á landi síðustu áratugi og hefur gefist ágætlega. Sú staðreynd að ákvörðun um skipan nefndanna og úrvinnsla þeirra sé á Alþingi tryggir aðkomu stjórnarandstöðu að skipan og úrvinnslu á niðurstöðum nefndanna og tryggir einnig opinbera umfjöllun um skýrslur þeirra. Sá þáttur er mikilvægur og getur orðið nauðsynlegur liður í því að gera upp vandasöm mál sem upp hafa komið og almenningur hefur fylgst með um hríð. Nærtækasta dæmið um þetta er nýleg skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og afleiðingar falls íslensku bankanna. Hætt er við að trúverðugleiki þeirrar nefndar sem fékk það viðamikla hlutverk að grafast fyrir um orsakir efnahagshrunsins á Íslandi hefði ekki verið jafnmikill og raunin varð á ef nefndin hefði verið skipuð af ríkisstjórn án aðkomu þingsins. Þá er rétt að vekja athygli á því að einstakir ráðherrar geta á grundvelli 38. gr. stjórnarskrárinnar lagt fram á Alþingi tillögu um skipan rannsóknarnefndar eins og önnur þingmál og að auki geta þeir eftir sem áður á grundvelli almennra valdheimilda sinna stofnað til almennrar stjórnsýsluathugunar á málum sem undir þeirra valdsvið heyra telji þeir ástæðu til.

Í vinnu við undirbúning frumvarpsins var samstaða um að vald til þess að skipa rannsóknarnefndir skuli vera hjá Alþingi og að þær starfi á vettvangi Alþingis en ekki á vegum framkvæmdarvaldsins eins og algengara er í öðrum löndum. Í greinargerð frumvarpsins er að finna ítarlega umfjöllun um rannsóknarnefndir hér á landi og lagagrundvöll þeirra þar sem þeim hefur verið komið á fót. Enn fremur er til samanburðar fjallað ítarlega um skipan rannsóknarnefndar í Danmörku og Noregi. Rétt er að vekja hér sérstaka athygli á umfjöllun um þau skilyrði sem leggja ber til grundvallar hvenær réttlætanlegt sé að skipa rannsóknarnefnd, samanber 1. gr. frumvarpsins.

Í fyrsta lagi er lögð áhersla á að mál hafi almennt mikilvægi. Það er í valdi Alþingis að meta það hverju sinni hvort mál telst mikilvægt. Það liggur þó í hlutarins eðli að þegar mál hefur almennt mikilvægi felur það í sér að málið verður að hafa tiltekna þyngd eða þýðingu til þess að réttlætanlegt sé að skipa rannsóknarnefnd. Þetta kann að birtast í því að málið hefur verið lengi í opinberri umræðu án þess að öldur hafi lægt. Þau mál sem komið hafa til kasta íslenskra rannsóknarnefnda hafa átt það sameiginlegt að hafa verið tilefni opinberrar umræðu um nokkurt skeið áður en nefndirnar eru skipaðar og ef það er mælikvarði á mikilvægi máls hafa þau mál átt það sammerkt að hafa haft almennt mikilvægi.

Í öðru lagi er það skilyrði að mál hafi tengst meðferð opinbers valds. Í þessu sambandi hafa þau mál sem komið hafa til kasta rannsóknarnefnda hér á landi tengst með einhverjum hætti ríkisvaldinu eða meðferð þess á mikilvægum málum sem almenning varða.

Í þriðja lagi getur verið um að ræða mál sem hafa almenna þýðingu en beinast ekki endilega að grun um tiltekið brot. Tilgangur rannsóknar er þá að kanna hvort kerfislæg vandamál séu til staðar í stjórnkerfinu eða ef umfang brots er ekki þekkt og ekki vitað hver ber ábyrgð á því sem kann að hafa farið úrskeiðis. Dæmi um slíkt er rannsóknarnefnd Alþingis.

Í fjórða lagi getur skipan rannsóknarnefndar leitt af sér kröfu um óhlutdrægni og sjálfstæði gagnvart stjórnvöldum. Slíkt getur t.d. átt við þegar grunur leikur á að stjórnmálamenn hafi átt þátt í eða beri ábyrgð á máli sem komið hefur upp eða þegar gagnrýni hefur beinst að lögreglunni eða öðrum sem ella mundu koma að rannsókn máls.

Í fimmta lagi getur skipan rannsóknarnefndar byggst á því að til staðar sé grunur um að ráðherra hafi gefið Alþingi rangar upplýsingar um mál, vanrækt upplýsingaskyldu sína eða með öðrum hætti vanrækt embættisskyldur sínar.

Frumvarpið geymir almennar reglur um það hvernig rannsóknarnefnd verður komið á fót og um skipan hennar. Mælt er fyrir um sjálfstæði og hæfi nefndarmanna, um verkefni rannsóknarnefnda og um framkvæmd rannsókna. Þá eru ítarleg ákvæði um heimildir rannsóknarnefndar til gagnaöflunar og um skýrslugjöf fyrir nefnd. Mælt er sérstaklega fyrir um réttarstöðu einstaklinga sem koma fyrir rannsóknarnefnd og um þagnarskyldu. Loks er í frumvarpinu mælt fyrir um upplýsingagjöf rannsóknarnefndar á starfstíma hennar og hvernig rannsóknarnefnd ljúki störfum.

Verði frumvarpið að lögum er ljóst að stigið verður stórt skref í að styrkja eftirlitsverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Mun Alþingi þannig fá sérstakar heimildir til eftirlits með störfum og starfsháttum stjórnvalda í málum sem snerta hagsmuni almennings og hafa samfélagslega þýðingu.

Ég legg til, hæstv. forseti, að mál þetta gangi til allsherjarnefndar að lokinni þessari umræðu. Ég vil í lokin þakka öllum þeim sem hafa komið að því að búa þetta mál í þann búning sem hér liggur fyrir og hafa lagt sig fram um að ná þeirri samstöðu sem um málið ríkir meðal forsætisnefndarmanna og annarra þeirra sem hafa komið að málinu. Sömuleiðis vil ég þakka nefndinni sem tók að sér að vinna skýrsluna um styrkingu eftirlitshlutverks Alþingis fyrir þeirra mikilvæga starf en skýrslan var lögð hér fram í september 2009, eins og ég gat um í máli mínu.