139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Hv. þingmaður spurðist fyrir um hvort þingmaður gæti komið með ályktun um að gera rannsókn. Það er gert ráð fyrir því í frumvarpinu, sú ályktun færi auðvitað fyrir nefnd þingsins sem mundi taka hana fyrir eins og getið er um í frumvarpinu, þ.e. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins sem kveðið er á um í frumvarpi sem nú er í vinnslu milli þingflokkanna um breytingar á þingsköpum. Síðan færi málið til þingsins sem tæki afstöðu til þess.

Varðandi 6. gr. sem hv. þingmaður spurðist fyrir um, varðandi þá sem koma fyrir nefndina, varð niðurstaðan við vinnslu frumvarpsins að fara norsku leiðina og það sé valkvætt hvort einstaklingar komi fyrir nefndina. Það var niðurstaða þeirra sem sömdu frumvarpið og við höfum ekki gert athugasemdir við það en höfum tekið undir þá leið.