139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[18:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá geri ég ráð fyrir því í framhaldi af svörum hv. þingmanns að hún sjái fyrir sér að frumvarpið um breytingar á þingsköpum og þetta frumvarp verði afgreidd samhliða, annað fari ekki á undan hinu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir væntanlega allsherjarnefnd sem fer í gegnum frumvarpið að skoða sérstaklega vel réttarstöðu einstaklings. Það var náttúrlega eitt af þeim atriðum sem voru rædd hvað mest í umræðunni um landsdómsmálið á sínum tíma. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tryggjum ekki bara, eins og hér kemur fram, réttarstöðu þess sem er til rannsóknar heldur líka vitna sem koma fyrir nefndina og gefa upplýsingar. Svo gæti jafnvel verið, í því ferli þegar vitni gefa upplýsingar, að þau segðu eitthvað sem gerði að verkum að ástæða væri til að rannsaka það frekar og nefndin kæmist jafnvel að þeirri niðurstöðu að vísa þyrfti slíkum málum til ákæruvaldshafa.

Það er því mjög mikilvægt, þegar við horfum til ákvæða mannréttindasáttmálans og þeirra úrskurða sem liggja þar fyrir, að við gætum þess mjög vel að tryggja bæði réttarstöðu þess sem er verið að rannsaka og réttarstöðu vitna fyrir rannsóknarnefndinni. Ég mun fara aðeins betur í gegnum það í ræðu minni.