139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[18:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir sjálfsagðar þakkir til handa flutningsmanni, forseta þings, hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir greinargóða framsögu og fyrir frumvarpið eins og það kemur fyrir í heild sinni. Það er löngu tímabært að koma formi á þennan hluta eftirlitshlutverks þingsins. Eins og komið hefur fram hjá öðrum hv. þingmönnum er þetta á margan hátt eins og fyrirmyndin á að vera að því hvernig menn vinna frumvörp. Fyrst er farið í skýrslugerð mikla og síðan er lagst yfir frumvarpið og það gert í samráði og samvinnu allra þingflokka. Tekið er tillit til fjölmargra sjónarmiða áður en frumvarpið kemur til þingsins og ber þá sannarlega þess vitni að búið sé að fara vel yfir það. Á fyrri stigum voru uppi hugmyndir um að framkvæmdarvaldið kæmi meira að skipan þessari eða umsýslu en búið er að tryggja í frumvarpinu að þetta verði á vegum þingsins. Ég held að það sé mikilvægt til að styrkja trúverðugleika þingsins að það hafi eftirlit með framkvæmdarvaldinu og að framkvæmdarvaldið geti ekki haft puttana í því á nokkurn hátt.

Það kemur auðvitað fram í sjálfu frumvarpinu og hefur reyndar einnig komið fram í ræðum nokkurra hv. þingmanna að í 1. gr. þess er ýjað að sérstakri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Í fyrirhuguðu þingskapafrumvarpi sem hugsanlega kemur til þings á næstunni eru m.a. lagðar til breytingar á fastanefndum þingsins og að sett verði á laggirnar slík nefnd. Þetta var einnig rætt hjá þingmannanefndinni sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis og við þekkjum þessa fyrirmynd einkum frá Noregi. Í þeirri nefnd yrði auðvitað að stóru leyti fjallað um óskir eða ábendingar einstakra þingmanna eða þingmannahópa. Slíkt færi fyrir nefndina ef hún verður sett á laggirnar í kjölfarið á þingskapafrumvarpinu.

Nú liggja fyrir til að mynda átta rannsóknarbeiðnir. Við gleðjumst dálítið yfir því að vera komin með fast form á rannsóknarnefndirnar og að komið sé sérstakt frumvarp eða sérstök löggjöf um þær. Þetta má hins vegar ekki verða til þess, eins og kom fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur áðan, að hér muni dengjast yfir okkur hugmyndir um nýjar og nýjar rannsóknir af því að við höfum fundið nýjan farveg fyrir þær.

Við verðum að velta því fyrir okkur til hvers við förum fram á slíkar rannsóknir. Þar held ég að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundi gegna miklu hlutverki við að sía hreinlega frá hluti sem hægt er að gera með einfaldari hætti, til að mynda með stjórnsýsluúttekt ráðuneytis, skýrslugjöf ráðherra eða einhverju slíku. Það á ekki allt að fara í þetta form. Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því, á meðan við gleðjumst yfir þessu formi, að við megum ekki ofnota það.

Þar spilar auðvitað inn í þáttur sem nokkrir hv. þingmenn hafa fjallað hér um og það eru auðvitað réttaröryggissjónarmið þeirra sem eru til rannsóknar. Í umfjöllun um frumvarpið á bls. 21 undir liðnum réttaröryggissjónarmið stendur, með leyfi forseta:

„Niðurstöður rannsóknarnefnda geta hins vegar haft verulega íþyngjandi áhrif fyrir þá sem til rannsóknar eru og má líkja því við áhrif af almennri sakamálarannsókn auk þess sem hætta er á að opinber birting á niðurstöðum nefndarinnar hafi í för með sér tiltekin dómsáhrif. Einkum á þetta við þegar rannsókninni er beint að því hvort einstaklingar hafi framið lögbrot eða gerst sekir um aðra ámælisverða háttsemi en í slíkum tilvikum vakna upp spurningar um réttaröryggi þeirra sem eru til athugunar annars vegar sem og um ábyrgð nefndarmanna á því sem fram kemur í skýrslum nefndanna.“

Seinna í sama kafla, með leyfi forseta:

„Þau óþægindi sem eru af því að sæta rannsókn og opinberri gagnrýni vegna athafna sinna eru því í litlu samhengi við formlega stöðu rannsóknarnefndarinnar sem stofnunar í stjórnkerfinu. Réttaröryggissjónarmið mæla því með því að úrræðið sé notað af varfærni, einungis í undantekningartilvikum og við sérstakar aðstæður.“

Ég vil því árétta sérstaklega að þrátt fyrir að við gleðjumst yfir því að komið sé fast form á rannsóknarnefndirnar þá eigum við að nota þær afar sparlega.

Það má kannski spyrja sig í hvaða tilvikum þær eiga við. Um það er auðvitað fjallað, bæði í 1. gr. og eins þeirri 4., um verkefni nefndarinnar, skipun og gildissvið. Til að mynda er fjallað um að málsatvik þurfi að vera með þeim hætti að varði almenning sérstaklega og tengist meðferð opinbers valds. Það getur einnig verið að það sé réttlætanlegt að grípa til þessa úrræðis í öðrum tilvikum, sérstaklega ef við erum ekki að skoða ábyrgðir eða hugsanlegar misgerðir einstaklinga. Þetta gæti verið hluti af því sem ég talaði um í upphafi máls míns; skýrslugerð vegna einhverra óljósra hluta sem menn þurfa að gera sér betur grein fyrir og er þar af leiðandi upphaf að nýrri löggjöf eða breytinga á löggjöf. Einhverja sérstaka þekkingu þurfi til að rannsaka mál fyrir þingið svo að það geti brugðist við. Á þann hátt getur málsmeðferðin í slíkum tilfellum verið fordæmi í sjálfu sér fyrir því hvernig við bætum seinna löggjöf þingsins.

Það er líka eðlilegt að við veltum því upp í því pólitíska umróti sem verið hefur um langt árabil en hefur þó náð ákveðnu hámarki í kjölfarið á hruninu og í ljósi þess að komnar eru fram óskir um átta rannsóknir þingsins, hvort við höfum farið langt fram úr okkur í því að líta til baka, í þörfinni á að finna orsakir fyrir öllu en eyðum kannski of litlu púðri í framtíðina. Við þurfum líka að finna leiðir til að ljúka málum. Við ræddum þetta talsvert í umræðunni um landsdóm á sínum tíma. Það getur líka verið eðlilegt að þessi farvegur verði notaður og það sé einhver mælikvarði á það hvenær á að kalla saman rannsóknarnefnd að mál hafi verið lengi í opinberri umræðu án þess að öldur hafi lægt og verulegur pólitískur ágreiningur sé um það hvað sé rétt og hvað sé rangt. Þá geti verið rétt að kalla til slíka rannsóknarnefnd til að finna einhverja leið til að ljúka því.

Það er svo annað mál, að það stendur ekkert í frumvarpinu um hvernig á að ljúka máli. Þótt rannsóknarnefndin mundi hugsanlega taka það til og skila skriflegri skýrslu til forseta þings, þá getum við spurt okkur: Og hvað svo? En ef af þessari eftirlits- og stjórnskipunarnefnd verður mun hún væntanlega hafa það hlutverk að velta því fyrir sér hvað skuli svo gera við niðurstöður rannsóknarnefndarinnar. Það getur auðvitað verið með ýmsum hætti. Málinu getur verið vísað til lögreglu eða saksóknara, fjallað um það í skýrslugjöf í þinginu, veittar ávítur eða hvað það nú er og hugsanlega gengið líka lengra. Það hefur þá væntanlega verið tilefni til þess fyrr.

Nú hef ég nokkrum sinnum nefnt fyrirhugaða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fjallað er um í frumvarpi til breytinga á þingsköpum. Nú er auðvitað ekki öruggt að það gangi í gegn. Við þurfum að velta fyrir okkur með hvaða hætti við tryggjum farveg þessara rannsókna. Eins og ég hef komið að tel ég að þær séu fullmargar og menn ættu kannski að velta því fyrir sér hvort við séum ekki að ganga of langt í því. Í þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar frá því í september sem samþykkt var í þinginu 63:0 eins og frægt er, og það hefur komið fram í máli hv. þingmanna, eru gerðar tillögur um tvær sjálfstæðar, óháðar rannsóknir sem mundu falla akkúrat inn í þetta. Það er í sjálfu sér orðið tímabært að slíkt fari af stað. Stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirliti og Seðlabanka er auðvitað hægt að gera aðeins öðruvísi.

Í 3. kafla þingsályktunartillögunnar sem var samþykkt 63:0 er fjallað um að nefnd á vegum Alþingis hafi eftirlit með úrbótum á löggjöf sem þingmannanefndin leggur til í skýrslu sinni að verði hrint í framkvæmt. Svo ég vitni beint í niðurstöðuna, með leyfi forseta: „Miðað skal við að þeim úrbótum verði lokið fyrir 1. október 2012“.

Ég held að allsherjarnefnd þurfi að fjalla um þetta og kannski við í þinginu, í ljósi þess að ekki er öruggt að breytingar á þingsköpum gangi í gegn á næstu vikum eða jafnvel ekki mánuðum. Það er íhugunarefni hvort við þurfum að setja á laggirnar einhverja nefnd sem hafi eftirlit með þessum hlutum og setji þá í gang aðrar rannsóknir sem við teljum nauðsynlegt að gera. Það er alveg ljóst að þrátt fyrir að frumvarpið sem slíkt sé til fyrirmyndar og vel unnið þá þarf nefndin engu að síður að fjalla um það.