139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls í þessari umræðu. Margir hverjir hafa farið ítarlega yfir málið, rakið tilurð þess og lokið lofsorði á vönduð vinnubrögð sem ég tek heils hugar undir. Málið hefur verið í vinnslu hjá forsætisnefnd eftir að það kom frá þeim sérfræðingum sem unnu eftirlitsskýrsluna sem við höfum þegar nefnt. Eftir að Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor á Bifröst, vann verkið hafa margir komið að því, forsætisnefndarmenn, fulltrúar úr allsherjarnefnd og aðrir fulltrúar flokkanna. Það hefur verið unnið í mikilli sátt og gerðar á því þó nokkrar breytingar sem ég tel að allar séu til bóta.

Mig langar að nefna nokkur atriði sem gerðar voru athugasemdir við, þ.e. nefndur var kostnaðurinn af þessum rannsóknarnefndum. Ég tek sérstaklega fram að þetta er auðvitað rammi sem er verið að setja um það hvernig rannsóknarnefndir skulu settar. Kostnaðurinn hlýtur að fara eftir því hversu viðamikið verk rannsóknarnefndinni er falið og verður að sjá fyrir þeim fjárveitingum sem þarf til að nefndirnar geti unnið vinnu sína sómasamlega. Ég treysti því og trúi að eftir að þingið hefur styrkst í kjölfar þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar sem samþykkt var 63:0 muni þingið geta sett fram þær fjárhagstillögur sem þörf er á þegar settar eru á laggirnar slíkar rannsóknarnefndir.

Minnst var á að formaður nefndarinnar yrði lögfræðingur. Það var þó nokkuð rætt við undirbúning frumvarpsins og kom þar fram að í ljósi þess hversu mörg álitamál kæmu upp og að jafnvel þyrfti að vera með yfirheyrslur væri mikilvægt að í nefndinni væri löglærður nefndarmaður og hann færi með formennsku.

Ég get heils hugar tekið undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni og hefur það verið ítrekað að ekki eigi að ofnota þetta úrræði heldur fara varlega með það. Ég tek undir það og það verður seint sagt of oft.

Það var aðeins spurt út í skipun nefndarinnar. Tillögur að skipun geta komið frá eftirlitsnefndinni og einnig í samráði við forsætisnefnd. Við þekkjum það frá rannsóknarnefnd Alþingis vegna falls bankanna að þar tókst góð sátt um nefndarskipanina og mikilvægt er að víðtæk sátt sé um skipun nefndarmanna í rannsóknarnefndir á vegum þingsins.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Þetta er mjög fróðleg lesning, greinargerðin er yfirgripsmikil og mikilvæg í sögulegu samhengi. Þarna eru teknar saman allar þær rannsóknarnefndir sem settar hafa verið á laggirnar. Það kom fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að í gegnum tíðina hafi færri rannsóknarnefndir verið settar á laggirnar á vegum Alþingis en nú er farið fram á í kjölfar vinnu þingmannanefndarinnar. Mig minnir að hún hafi tínt til níu nefndir en þær eru tíu sem eru í umfjöllun hér núna.

Rannsóknin á falli bankanna er nýafstaðin og menn hafa auðvitað ýmsar tilfinningar í garð þess hvernig því verkefni öllu lauk en vonandi eigum við ekki eftir að upplifa slíkt á næstunni.

Það var rætt um hvernig málum væri háttað annars staðar á Norðurlöndum. Ég vil vísa í greinargerðina þar sem ítarlega er farið yfir það í skýringum við greinarnar. Meðal annars er athugasemd við 1. gr. frumvarpsins þar sem farið er ítarlega yfir það hvernig nefndir eru skipaðar í Noregi og Danmörku. Ég hvet menn til að lesa það yfir.

Málið fer nú til allsherjarnefndar og ég geri ráð fyrir að allsherjarnefndarmenn fari yfir þessa umræðu og skoði þá þætti sem menn hafa bent á. Ég heyri ekki betur en að samhljómur sé í máli manna um þetta mál og það ætti ekki að þurfa mikla skoðun í nefndinni. Ég hvet menn engu að síður til að fara vel yfir það. Án efa vilja menn senda það eitthvað til umsagnar en það á ekki að þurfa langan tíma eftir alla þá ítarlegu vinnu sem hefur verið unnin þverpólitískt fram að því að málið kom fram í þinginu.

Ég þakka aftur fyrir góða umræðu og læt máli mínu lokið.