139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum. Frumvarp sama efnis var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Við umfjöllun um frumvarpið hafði nefndin einnig hliðsjón af athugasemdum sem bárust við það frumvarp. Frumvarpið er lagt fram með þeirri breytingu að kærugjald skv. 1. gr. fæst endurgreitt ef mál vinnst fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Flest ákvæði frumvarpsins fengu ítarlega umfjöllun í nefndinni en segja má að mest hafi verið fjallað um b-lið 2. gr. þar sem lagt er til að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni.

Við meðferð málsins í nefndinni komu fram athugasemdir við það að heimild Samkeppniseftirlitsins væri of víðtæk en einnig var bent á að erfitt væri að afmarka efni þess með nákvæmari hætti, m.a. vegna ólíkra aðstæðna á mörkuðum og óvissu um háttsemi markaðsaðila. Meiri hlutinn telur réttlætanlegt að í samkeppnislögum sé að finna ákvæði af þessu tagi en því beri aðeins að beita í undantekningartilfellum og undanfari þess verður að vera ítarleg rannsókn á gerð viðkomandi markaðar og eðli samkeppnislegra vandamála og greining á þeim úrræðum sem koma til greina.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á orðalagi 2. gr.

Í fyrsta lagi að í stað orðanna „raskar samkeppni“ komi orðin „skaðleg áhrif á samkeppni“, þ.e. að ákvæðið eigi við um aðstæður eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni. Með þessu áréttar nefndin að Samkeppniseftirlitið verður að hafa metið aðstæðurnar eða háttsemina skaðlega til að ákvæðinu verði beitt. Í öðru lagi að gerð verði viðbót við 1. málslið um að aðstæður eða háttsemi teljist vera almenningi til tjóns til að unnt verði að beita heimildinni. Þessi tillaga er ekki efnisleg breyting enda eru samkeppnislög sett til verndar neytendum. Breytingartillögunni er ætlað að hnykkja á því að heimildinni verði ekki beitt nema aðstæður eða háttsemi fyrirtækis séu þess háttar að það liggi fyrir að neytendur hafi orðið fyrir tjóni af völdum hennar. Í þriðja lagi er lagt til að við c-lið 2. gr. bætist tilvísun til meðalhófsreglu sem er í gildandi lögum en hefði fallið brott yrði frumvarpið óbreytt að lögum. Er því lagt til að í c-lið verði kveðið á um að Samkeppniseftirlitið geti beitt nánar tilteknum úrræðum í réttu hlutfalli við það brot sem hefur verið framið eða þær aðstæður eða þá háttsemi sem er til staðar.

Við rannsókn mála sem ákvæði b-liðar 2. gr. frumvarpsins kann að ná til er svokallaður vöru- eða þjónustumarkaður skilgreindur sem og landfræðilegur markaður. Þá ber eftirlitinu að afla ítarlegra upplýsinga um aðstæður viðkomandi markaða. Á grundvelli 2. mgr. 8. gr. samkeppnislaga hefur Samkeppniseftirlitið sett reglur um málsmeðferð eftirlitsins, samanber reglur nr. 880/2005. Gert er ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið taki saman svonefnt andmælaskjal þar sem helstu atvikum máls er lýst, tilgreint hvaða háttsemi eða aðstæður séu taldar fara gegn samkeppnislögum og aðilum máls mun gefast kostur á að koma að athugasemdum innan hæfilegs frests. Aðili máls getur skotið ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Virðulegi forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum þremur breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir. Auk þessa kom breyting við 3. gr. sem skýrir hverjum ber að greiða samrunagjaldið.

Undir nefndarálitið rita sú sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Skúli Helgason, Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Valgerður Bjarnadóttir og Margrét Tryggvadóttir.