139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[20:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega erfitt að svara þeirri spurningu í hvaða geira atvinnulífsins þessari heimild verður beitt vegna þess að atvinnulífið í dag er mjög kvikt. Það eiga sér stað miklar breytingar, ekki síst vegna mikillar skuldsetningar fyrirtækja á umliðnum árum. Ég sem þingmaður á því mjög erfitt með að greina það hér og nú hvaða fyrirtæki muni hugsanlega lenda í því að Samkeppniseftirlitið fyrirskipi þeim að skipta upp starfsemi sinni.

Ég held líka að það þurfi að fara fram, eins og kemur fram í nefndarálitinu og einnig í sjálfu frumvarpinu, rannsókn á aðstæðum á markaði viðkomandi fyrirtækis og samkvæmt upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu eru slíkar rannsóknir mjög ítarlegar. Fram fer greining á því á hvers konar vöru- og þjónustumarkaði fyrirtækið starfar. Einnig er tekið tillit til þess á hvaða landfræðilega hluta markaðarins fyrirtækið er. Þær upplýsingar eru notaðar til að meta hvort starfsemin að óbreyttu raski samkeppni og skaði á einhvern hátt hagsmuni almennings. Ég get því ekki betur séð en allir þeir varnaglar sem ég tel nauðsynlegt að slá varðandi það að takmarka möguleika Samkeppniseftirlitsins til að taka ákvörðun sem er ekki byggð á markaðsaðstæðum séu til staðar í frumvarpinu eftir að viðskiptanefnd hefur gert breytingartillögur við það.