139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[20:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem hv. þingmaður svaraði ekki spurningu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar ætla ég að endurtaka hana: Hvaða fyrirtæki eru það sem gefa tilefni til að setja þessi lög?

Mig langar að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur: Gefum okkur að fyrirtæki komi inn á markað þar sem fyrir er fjöldi fyrirtækja sem hafa verið tiltölulega illa rekin og illa stjórnað. Nýja fyrirtækið er frábærlega vel rekið því er vel stjórnað og vegna þess að það getur selt vörur sínar ódýrar o.s.frv. og veitt betri þjónustu vex það og vex. Háttsemi þessa fyrirtækis — hér er meðal annars talað um háttsemi — felst í því að veita mjög góða þjónustu, vera vel skipulagt og geta skilað miklu ódýrari vöru.

Nú vex þetta fyrirtæki og vex með tímanum og nær hægt og rólega — án þess að vilja það — meiri hluta á markaðnum vegna þess að hin fyrirtækin sem þar voru fyrir voru illa rekin, þeim var illa stjórnað og þau leggja upp laupana hvert á fætur öðru. Telur hv. þingmaður að þá eigi að ráðast á nýja fyrirtækið, skipta því upp og flytja því þau skilaboð að reka sig ekki alveg svona vel í framtíðinni?