139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[20:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er ítrekað spurt um að hvaða fyrirtækjum þetta frumvarp beinist. Ég vil ítreka að það er ekki hlutverk löggjafarsamkundunnar að vera með löggjöf sem beinist að einum aðila heldur fyrst og fremst að taka á ákveðnum aðstæðum. Ég tel að það sé einmitt það sem leitast er við að gera í frumvarpinu. Það er mjög mikilvægt að eftirlitsaðilar hafi við þær aðstæður sem við búum við í dag öll þau tæki sem til þarf til að tryggja samkeppni í hagkerfi þar sem er ákveðin tilhneiging, vegna smæðar hagkerfisins, til einokunar. Slík einokun getur jú verið jákvæð ef um er að ræða mikla stærðarhagkvæmni en það er þá Samkeppniseftirlitsins að meta hvort rétt sé að skipta slíku einokunarfyrirtæki og það er Samkeppniseftirlitsins að komast að því hvort slík uppskipting á einokunarfyrirtæki leiði til lægra verðs fyrir neytendur. Það er einmitt markmið 2. gr. í frumvarpinu.

Eins og ég hef getið um áður er margítrekað, bæði í frumvarpinu og í nefndarálitinu, að fara þurfi fram rannsókn á aðstæðum á markaði áður en (Gripið fram í.) Samkeppniseftirlitið beitir þessari heimild. Ekki nóg með það heldur geta þau fyrirtæki sem er fyrirskipað að skipta upp starfsemi sinni áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og lagt fram rök sín fyrir því að ekki eigi að skipta starfseminni upp.