139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:14]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Við erum ekki sammála um áhersluatriði málsins, en meiri hluti nefndarinnar, þ.e. fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins, taka undir með Neytendasamtökum sem segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin telja mjög til bóta að Samkeppniseftirlitinu séu veittar rýmri heimildir en stofnunin hefur í dag til þess að grípa inn í aðstæður á markaði sem telja má að séu óeðlilegar og geti haft neikvæð áhrif á hagsmuni neytenda.“ Það ákvæði frumvarpsins sem snýr að neytendum taka þau mjög vel undir enda „sé það til þess að auka virka og raunverulega samkeppni sem aftur kemur neytendum til góða í vonandi bættri þjónustu og lægra vöruverði.“

Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki undir með Neytendasamtökunum. Ég sé málið kristallast þannig að það eru ákveðnir hópar á þingi sem vilja taka stöðu með neytendum í landinu en Sjálfstæðisflokkurinn tekur stöðu með öðrum og telur ekki beri að veita Samkeppniseftirlitinu virka heimild í þessu sambandi.

Ég vildi svo gjarnan halda áfram en því miður er tími minn á þrotum.