139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:18]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gæta hagsmuna almennings. Ég tel að hagsmunir almennings fari saman við hagsmuni atvinnulífsins. Ef atvinnulífinu gengur vel þá gengur almenningi vel. Við verðum að haga löggjöfinni þannig að fyrirtækin þurfi ekki að búast við því að yfirvöld hafi svo víðtækar valdheimildir að þau geti, án þess að nokkur lög hafi verið brotin, brotið fyrirtækin upp.

Ég batt vonir við að hv. þm. Magnús Orri Schram, sem hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar talað um mikilvægi þess að atvinnulífið gangi vel og fyrirtækjunum reiði vel af, hefði einhvern skilning á þessum sjónarmiðum og mótmælum sem komið hafa fram frá fyrirtækjum (Forseti hringir.) í landinu við frumvarpinu bæði á þessu ári (Forseti hringir.) og þegar mælt var fyrir því. Svo er greinilega ekki og það eru vonbrigði.