139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:24]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni ummæli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að það hafi verið einróma álit umsagnaraðilanna sem komu fyrir nefndina að gagnrýna frumvarpið harðlega og vísaði þar á meðal í öll samtök atvinnulífsins. Hv. þm. Magnús Orri Schram rakti sjónarmið Neytendasamtakanna sem telja til bóta að Samkeppniseftirlitinu séu veittar rýmri heimildir. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna sérstaklega til umsagnar Félags atvinnurekenda.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Félag atvinnurekenda telur að umrætt frumvarp sé til mikilla bóta. Félagið telur að með því sé stigið mikilvægt skref í þá átt að bæta íslenska samkeppnislöggjöf.“

Þó að ýmsir aðrir aðilar í atvinnulífinu hafi haft ýmislegt við frumvarpið að athuga, get ég tekið eitt dæmi til viðbótar frá (Forseti hringir.) Iceland Express sem gerir engar athugasemdir við 2.–4. gr. frumvarpsins. Þessi dæmi sýna að það eru skiptar skoðanir um ágætið.