139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sjónarmið sem hv. þingmaður reifar hér kom margoft fram í umfjöllun nefndarinnar, þ.e. athugasemdir við að heimild Samkeppniseftirlitsins væri of víðtæk. En enginn umsagnaraðili, jafnfróðir og þeir voru nú, gat samt sem áður bent á með hvaða hætti væri hægt að afmarka efni heimildarinnar eða frumvarpsins. Það er vegna þess að aðstæður á markaði eru ólíkar og óvissa ríkir um háttsemi markaðsaðila. Enginn umsagnaraðili gat bent á hvernig væri hægt að afmarka heimildina.

Þess vegna telur meiri hluti nefndarinnar að rétt sé, eins og hefur komið fram í máli okkar, eins og ítarlega er rakið í greinargerð með frumvarpinu og ég rakti í ræðu minni, samanber minnisblaðið sem barst frá Samkeppniseftirlitinu þegar málið var til umfjöllunar í nefndinni, að svona ákvarðanir þurfa að fara í gegnum mjög ítarlegt ferli áður en þær eru teknar. Mér taldist til að Samkeppniseftirlitið þyrfti að fara í gegnum u.þ.b. fimm hlið áður en hægt væri að beita svona íhlutun. Við teljum að við höfum rammað þetta inn eins vel og gerlegt er í þessu tilviki.