139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:54]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem hlýddu á ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hljóta að draga þá ályktun af því sem þar kom fram að væri hv. þm. Magnús Orri Schram eigandi fyrirtækis sem hann hefði byggt upp sjálfur og gengi vel í viðskiptum og nyti velvildar á markaði með nokkuð góða markaðshlutdeild, að hann mundi bara taka því fagnandi ef Samkeppniseftirlitið mundi banka upp á einn góðan veðurdag hjá honum og tilkynna að þrátt fyrir að hann hefði ekki brotið nein lög eða gert neitt ámælisvert af sér í rekstri þyrfti hann samt sem áður að sæta því að fyrirtækið hans yrði brotið upp. Það var ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi en svo að væri hann eigandi fyrirtækis sem lenti í þessu hefði hann fullan skilning á slíku inngripi í rekstur hans. Hv. þingmaður getur leiðrétt mig ef ég dreg rangar ályktanir af ræðu hans en það var ekki hægt að skilja hann öðruvísi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að hann las það upp úr nefndaráliti að meiri hlutinn teldi réttlætanlegt að í samkeppnislögunum væri að finna slíkt ákvæði sem væri einungis beitt í undantekningartilvikum og að undangenginni ítarlegri rannsókn: Væri ekki betra og sanngjarnara gagnvart fyrirtækjum í landinu ef girðingarnar eða hliðin sem hv. þingmaður minntist á væru tilgreind í lagatextanum sjálfum og það stæði í lögunum eftir hverju Samkeppniseftirlitið ætti að fara?

Við sem höfum unnið við samkeppnismál vitum að til eru alls kyns mælikvarðar í samkeppnisfræðunum eins og markaðshlutdeild yfir ákveðnum mörkum, samþjöppun á tilteknum skilgreindum markaði og margt fleira sem hægt er að miða við (Forseti hringir.) í lagasetningu. Telur hv. þingmaður ekki að það yrði löggjöfinni til framdráttar ef þeir mælikvarðar yrðu tilgreindir í textanum og Samkeppniseftirlitinu gert skylt að fara eftir því sem hv. þingmaður predikar hér?