139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:56]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt í kvöld að það hryggir mig að Sjálfstæðisflokkurinn ætli sér ekki að taka stöðu með neytendum, með almenningi. (Gripið fram í.) Þetta hittir þá greinilega illa fyrir þannig að ég ítreka það sem ég sagði. (Gripið fram í.) Það hryggir mig að Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki að taka stöðu með neytendum í landinu og fylkja sér að baki frumvarpinu.

Af því að við ræðum hér samkeppnismál væri kannski áhugavert ef við gætum sameinast um að endurskoða samkeppnismál á búvörumarkaði. Þar horfum við fram á að fyrirtæki hafa markaðsráðandi stöðu, allt að 95%, en við getum ekki íhlutast um það vegna þess að þau eru bundin af búvörusamningi. Er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sammála mér um að við ættum kannski að ráðast á það mein og vinna frekar að hagsmunamálum neytenda og skoða búvörumálin, mjólkurmálin, og hvernig þau standa með tilliti til samkeppnismála í dag?

Ég get ekki annað en ítrekað það sem ég hef áður sagt í ræðum mínum. Það eru um það bil fimm hlið sem Samkeppniseftirlitið þarf að fara í gegnum til að geta íhlutast um fyrirtæki ef háttsemi þeirra er almenningi ekki til hagsbóta eða ef aðstæður á markaði eru almenningi til tjóns. Það er ekki svo að slík ákvörðun væri tekin af Samkeppniseftirlitinu án undirbúnings. Ef ég væri eigandi viðkomandi fyrirtækis væri mér gefinn kostur á að andmæla, ekki einu sinni heldur tvisvar ef ekki þrisvar.