139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[22:02]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, nr. 54/2006, með síðari breytingum.

Mikið hefur reynt á atvinnuleysistryggingakerfið frá því í október 2008 og hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið ásamt samtökum aðila vinnumarkaðarins fylgst náið með framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar frá þeim tíma. Í tengslum við það starf hefur samstarfshópur á vegum ráðuneytisins farið yfir framkvæmd laganna en í hópnum eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun auk fulltrúa ráðuneytisins. Lögð hefur verið áhersla á að bæta úr annmörkum sem upp hafa komið í framkvæmdinni og hefur félags- og tryggingamálaráðherra í því skyni lagt til breytingar á lögunum samtals fjórum sinnum frá því í nóvember 2008.

Virðulegi forseti. Við getum því miður ekki horft fram hjá því að langtímaatvinnuleysi hefur aukist hér á landi en samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun frá því í október sl. höfðu u.þ.b. 4.600 einstaklingar verið skráðir án atvinnu í tólf mánuði eða lengur af þeim rúmlega 12.000 einstaklingum sem voru að meðaltali skráðir án atvinnu í mánuðinum. Af þeim sem skráðir voru án atvinnu í lok október var fjöldi þeirra einstaklinga sem höfðu verið skráðir án atvinnu lengur en sex mánuði kominn í rúmlega 7.000 eða um 54% af heildinni.

Í ljósi þessa legg ég fram þetta frumvarp þar sem lagðar eru til ákveðnar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, ekki síst til að bregðast við auknu langtímaatvinnuleysi. Meðal þess sem lagt til í frumvarpinu er lenging bótatímabilsins úr þremur árum í fjögur ár. Er þá við það miðað að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og hefur í fyrsta skipti fengið greiddar atvinnuleysisbætur 1. maí 2008 eða síðar, geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í tólf mánuði til viðbótar frá þeim degi er þriggja ára tímabili hans lauk enda uppfylli hann áfram skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysisbóta. Með því að miða við 1. maí 2008 er vonast til að unnt verði að ná til sem flestra þeirra sem misstu vinnuna í efnahagshruninu eða aðdraganda þess haustið 2008 en að óbreyttu lýkur þriggja ára bótatímabili margra þessara einstaklinga einhvern tíma á árinu 2011. Lenging bótatímabilsins mun auka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs en hins vegar má ætla að útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar aukist minna en ella. Er þá horft til þess að atvinnuleitendur þurfi síður á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna að halda meðan þeir eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Breytingar þessar eru lagðar vegna sérstakra og tímabundinna aðstæðna á innlendum vinnumarkaði og því er gert ráð fyrir að gildistíminn verði tímabundinn til 31. desember 2011.

Virðulegi forseti. Í nóvember 2008 voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögunum um atvinnuleysistryggingar sem m.a. fólu í sér að tveimur ákvæðum til bráðabirgða, nr. V og VI, var bætt við lögin. Ákvæði til bráðabirgða V kveður á um að heimilt sé að uppfylltum tilteknum skilyrðum að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna og að greidd laun fyrir hlutastarf skerði ekki atvinnuleysisbætur viðkomandi. Auk þess var sjálfstætt starfandi einstaklingum heimilað að taka að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum eins og kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða VI við lögin. Þeim breytingum var ætlað að koma til móts við breyttar aðstæður á vinnumarkaði og var gildistími ákvæðanna því takmarkaður. Lögum um atvinnuleysistryggingar var breytt í tvígang árið 2009 og aftur á síðastliðnu vorþingi þar sem meðal annars gildistíma fyrrnefndra bráðabirgðaákvæða var breytt og hann framlengdur. Gildistími þeirra rennur út nú um áramótin.

Samhliða framlengingu á gildistíma ákvæðanna voru gerðar á þeim efnislegar breytingar. Meðal annars var sett það skilyrði að til að eiga rétt á hlutabótum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða V þyrfti starfshlutfall viðkomandi að hafa skerst um a.m.k. 20% en mætti þó ekki fara niður fyrir 50% starfshlutfall. Til að ná fram markmiðum í ríkisfjármálum samkvæmt frumvarpi til fjárlaga ársins 2011 er í frumvarpi þessu lagt til að starfshlutfall launafólks verði að skerðast um 30% hið minnsta í stað 20% áður svo að hlutaðeigandi geti átt rétt á hlutfallslegum greiðslum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða V í lögunum. Að öðru leyti eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á bráðabirgðaákvæðum V og VI í lögunum. Aftur á móti er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæða V og VI í lögunum um atvinnuleysistryggingar verði framlengdur til 30. júní 2011 vegna aðstæðna á vinnumarkaði.

Vert er að geta þess að umrædd ákvæði hafa þótt mjög góð úrræði þegar þrengt hefur að rekstri fyrirtækja sökum tímabundinna erfiðleika á vinnumarkaði þar sem gera má ráða fyrir að færri einstaklingar hafi misst störf sín að fullu en ella hefði verið. Þannig fengu tæplega 1.200 einstaklingar greiddar atvinnuleysisbætur í október 2010 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V en samtals voru rúmlega 2.000 einstaklingar skráðir í hlutastörf innan atvinnuleysistryggingakerfisins í lok október. Á sama tíma voru rúmlega 30 sjálfstætt starfandi einstaklingar skráðir hjá Vinnumálastofnun vegna samdráttar í rekstri þeirra og fengu því greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða VI.

Í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs, virðulegi forseti, eru í frumvarpinu enn fremur lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra um heimild til að ráðstafa fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs hjúkrunarheimila á rekstrarárinu 2011. Slík heimild er nú þegar fyrir hendi fyrir rekstrarárin 2012 og 2013. Áætlað er að á rekstrarárinu 2011 verði allt að 700 millj. kr. varið úr sjóðnum í þessum tilgangi. Þrátt fyrir það mun sjóðurinn hafa til ráðstöfunar rúmar 500 milljónir til endurbóta og viðhalds á öldrunarstofnunum árið 2011 en frá því að ríkisstjórnin samþykkti í október 2009 að hefja samstarf við níu sveitarfélög um byggingu hjúkrunarheimila samkvæmt svokallaðri leiguleið hafa ekki verið teknar nýjar ákvarðanir um byggingu hjúkrunarheimila með framlögum af fjárlögum eða úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hefur frumvarpið m.a. að geyma mikilvægar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem varða hagsmuni margra sem nú standa höllum fæti vegna atvinnumissis. Í mínum huga er því afar mikilvægt að Alþingi afgreiði frumvarp þetta fyrir lok þingsins, ekki síst vegna þess að gildistími ákvæða til bráðabirgða V og VI er einungis til næstu áramóta og því nauðsynlegt að þingið taki afstöðu til þess hvort eigi að framlengja hann. Biðjast verður velvirðingar á hve seint frumvarpið kemur fram en ég vona að það komi ekki að sök. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að umrædd ákvæði hafa þótt mjög góð úrræði þegar þrengt hefur að rekstri fyrirtækja og ætla má að þau hafi leitt til þess að færri einstaklingar hafi misst störf sín að fullu en ella hefði verið.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.